Ég átti erindi til Berlínar vorið 2015. Á leiðinni gluggaði ég í WOW blaðið í flugvélinni og datt ofan á grein með þessari lítt uppörvandi fyrirsögn:
The world’s loneliest hotel
Upphaf greinarinnar var heldur ekki hvetjandi:
We drive toward nowhere, heading for the world’s loneliest hotel. Other roads in Iceland lead somewhere, this just ends.1Jonas Löfvendahl, „The World’s Lonliest Hotel“. WOW Magazine 2. tbl. 2015, bls. 64-66.
Greinin fjallaði um hótelið á Djúpavík og er skrifuð af Svíanum Jonas Löfvendahl prýdd ljósmyndum landa hans, Nicklas Elmrin. Þeir félagar voru á ferð á Djúpavík sumarið 2014. Ég hafði reyndar líka verið þar á ferð það sumar og það var ekki í fyrsta sinn sem Djúpavík hafði verið minn áningarstaður. Mér finnst hann alltaf jafn spennandi.
En það er þetta með veginn sem ku enda á Djúpavík, samkvæmt þessum sænsku kumpánum, Jónasi og Nikulási. Hrafn Jökulsson, sem hefur dvalið langdvölum Trékyllisvík, skrifaði um hana bók sem hann nefndi Þar sem vegurinn endar. En eftir því sem ég best veit endar bílvegurinn hvorki á Djúpavík né í Trékyllisvík, heldur við Hvalá í Ófeigsfirði. Í það minnsta hef ég ekið alla leið þangað, en gat ekki séð að unnt væri að komast lengra á bíl. En kannski endar vegurinn ekki einu sinni við Hvalá þegar betur er að gáð. Þegar ég stóð á göngubrúnni yfir þetta kraftmikla vatnsfall, sem metið er á 320 GWh á ári af virkjanafíklum2„Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Tillaga að matsáætlun“, https://www.verkis.is/media/pdf/13029003-4-SK-0019-Hvala-tillaga-ad-matsaetlun.pdf. Sótt 2021.11.10., kom ungur maður skálmandi úr norðurátt. Aðspurður kvaðst hann vera að koma frá Dröngum og ætlaði að hvíla sig hjá frændum sínum á Eyri í Ingólfsfirði áður en hann héldi lengra. Síðan var hann rokinn sinn veg. Hann hafði líka komið sinn veg frá Dröngum, þó ekki væri sá vegur bílfær.
Hvaða máli skipti vegur – svosem. Sumarið 1912 gekk Þórbergur Þórðarson (1888-1974) á land í Norðurfirði í Trékyllisvík og gekk alla leið suður í Borgarnes – svotil vegalaus. Fyrsta daginn gekk hann í Reykjarfjörð og gisti þar hjá Friðriki Söebeck (1847-1915) og konu hans Karólínu Fabínu (1855-1918).
En handan við heiðarásinn,
á hæðum við mýrarfen,
býr hún Bína mín Soebeck,
borin Thorarensen.
Þannig orti hann svo á Ísafirði áratug seinna, eftir erfiða glímu við þénanleg rímorð og ljóðstafi, og vísaði þar til þess að Karólína var dóttir Jakobs Thorarensens (1830-1911) kaupmanns í Kúvíkum.3Þórðbergur Þórðarson, Edda Þórbergs Þórðarsonar. Reykjavík: Mál og menning, önnur útgáfa, aukin, þriðja prentun, 1981, bls. 162-164.. Allir þessir staðir eru innan seilingar frá sögustað dagsins.
Þrátt fyrir að vera miðpunktur tveggja síldarævintýra var Djúpavík vegalaus allan þann tíma þegar hæst hóaði. Þangað kom fyrst vegur árið 1965. Þá var síldin löngu farin og ljóst að sá vegur myndi ekki enda á Djúpavík. Raunar er Djúpavík og Árneshreppur allur meira og minna vegalaus á vetrum vegna snjóþyngsla og ófærðar.
Ef einhver heldur að hann sé að lesa upp úr Bókinni um veginn, þá fer því víðsfjarri. Þessi pistill fjallar um Djúpavík, sem hefur meiri sjarma en margan grunar. En til þess að komast í tæri við hann, verður maður að mæta á staðinn, drekka í sig náttúruna, skoða mannvistarleifar og leggja við hlustir svo maður heyri nið aldanna. Og taka fullt af myndum til að eiga síðar auðveldara með að endurupplifa heimsóknina. Kannski endar þetta ævintýri eins og heimsókn á Hotel California: you can check out anytime you like, but you can never leave.
Sagt er að Djúpavík dragi nafn sitt af djúpunum í Reykjarfirði, en ekki af dýpi í víkinni sjálfri. Þetta er vík djúpanna, en ekki djúpsins. Þess vegna beygist forliður nafnsins ekki (Djúpavík, Djúpavík, Djúpavík, Djúpavíkur). Um þetta deila menn svo auðvitað eins og allt annað, en hér ætla ég að reyna að halda mig við þessa kenningu.
Kjós og Kjósarmenn
Djúpavík er við Reykjarfjörð, í Árneshreppi á Ströndum, nánar tiltekið í landi jarðarinnar Kjósar, sem er í hálfhringlaga dalkvos í Reykjarfirði. Þar hefur verið búið um langan aldur. Árið 1703 bjó þar Bárður Jónsson með konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur, syninum Jóni og tvítugri vinnukonu sem hét Hallbera Ólafsdóttir. Í úttekt jarðarinnar þremur árum seinna er hún metin átta hundruð og þá er þar tvíbýli. Eftir það er búið í Kjós með fáeinum hléum allt til ársins 1946, en þá fór jörðin í eyði sem sjálfstæð bújörð.
Um 1800 flyst þangað Hjálmar Jónsson (1767-1803) frá Kollafjarðarnesi, þar sem hann hafði verið í vinnumennsku hjá Einari (1754-1845) bróður sínum dannebrogsmanni, sem var „einn mesti búhöldur í Strandasýslu um sína daga og varð auðugur; þó gjöfull og hjálpsamur“, eins og segir í Strandamönnum.4Jón Guðnason, Strandamenn, æviskrár 1703-1953, bls 226. Hjálmar var talinn hæglátur og sæmilega að sér, en sárafátækur og „deyði úr vesöld og viðurværisleysi“5Sama heimild, bls 457.. Kona hans var Steinunn Jónsdóttir (1767-1852). Afkomendur þeirra áttu eftir að búa í Kjós þar til jörðin fór í eyði, þó ekki samfellt. Þetta er sýnt hér á mynd.
Þegar Þórbergur gekk um bæjarhlað í Kjós, sumarið 1912, stóð þar „átta ára gamall drengur og virti fyrir sér þennan kynlega ferðalang.“6Þórbergur Þórðarson, Íslenzkur aðall, bls 152. Þessi drengur var Símon Jóhannes Ágústsson (1904–1976), fæddur í Kjós. Hann stundaði síðar háskólanám í uppeldisfræði og heimspeki í Frakklandi og Þýzkalandi og varði doktorsritgerð við Parísarháskóla 26. júní 1936 með ritgerð um þýska uppeldisfræðinginn Georg Kerschensteiner. Hann var síðar prófessor í heimspeki við Háskóla íslands (1948–1975) og þjóðkunnur fyrir bækur sínar og ritgerðir.7https://heimspeki.hi.is/?page_id=234. Sótt 2015.09.03.
Næsti ábúandi í Kjós á eftir Steinunni Jónsdóttur (1824-1878) og Jóhanni Karli Söebeck (1810-1891) var Magnús Andrésson (1806-1863), árin 1851-1863, og á eftir honum tengdasonur hans, Guðbrandur Jónsson (1828-1860), og dóttir, Margrét Magnúsdóttir (1830-1857). Dóttir þeirra var Guðrún Guðbrandsdóttir (1856-1957) og fæddist hún í Kjós. Hún giftist Kristófer Helgasyni (1857-1913) og þau bjuggu á ýmsum stöðum í Kaldrananeshreppi. Eftir lát Kristófers var Guðrún á Hrófá í Hrófbergshreppi, lengst af hjá Þorgeiri Þorgeirssyni (1894-1984) búfræðingi og bónda þar. Til gamans má geta þess að hinn 1. október 1953 flaug Guðrún Guðbrandsdóttir með Skýfaxa Flugfélags Íslands frá Hólmavík til Reykjavíkur. Hún var þá að heimsækja höfuðborgina í fyrsta sinn á ævinni, 97 ára gömul. Alþýðublaðið greindi frá þessu og gat þess jafnframt að hún hefði fengið fría ferð og fagran blómvönd að auki fyrir að vera elsti Íslendingurinn sem ferðast hafði með flugvél. Líklegt var talið að hún hafi á þeim tíma verið með elstu konum í öllum heiminum til að ferðast með flugvél.8Alþýðublaðið, 2. október 1954, bls 7-8. Sótt á www.timarit.is 2015.09.03.
Þrjú af börnum Ágústar og Petrinu bjuggu síðar á Djúpavík, þau Sveinsína, Sörli og Guðmundur Pétur.
Síldin kemur og fer
Síldin varð örlagavaldur í þessari litlu vík á fyrri hluta 20. aldar, eins og svo víða annars staðar á Íslandi. Ekki bara einu sinni – heldur tvisvar. Það þarf aðeins að fara yfir það og þó að hér sé ekki ætlunin að rekja sögu síldveiða við Ísland, er óhjákvæmilegt að víkja að þeim nokkrum orðum því síldin skóp Djúpavík sem þorp og athafnastað og lagði hann líka því sem næst í eyði.
Norðmenn voru upphafsmenn síldveiða við Ísland. Árið 1856 birti Jón Sigurðsson (1811-1879) í Nýjum Félagsritum kafla úr bréfi sem hann hafði fengið frá norskum kaupmanni sem sagði að bróðir hans hefði orðið var við ágæta síld við Íslandsstrendur. Þegar bróðirinn sagði Íslendingum frá þessu „svöruðu þeir oftast nær, að þeir hefðu nóg af þorski og þyrftu ekki síldarinnar við(!). Þetta svar mundi vera fágætt annarsstaðar“9„Um verzlun Íslands. Bréf frá kaupmanni í Noregi til Jóns Sigurðssonar“. Ný Félagsrit, 16. árg. 1856, bls 111-139, 115. skrifaði hinn norski kaupmaður af mikilli kurteisi, en dolfallinn yfir þessari fiskihagfræði Íslendinga.
Næstu árin gerðu norskir útvegsmenn tilraunir til síldveiða hér við land. Þær gengu brösuglega til að byrja með, en smám saman náðu þeir fótfestu hér og árið 1881 voru um 187 norsk skip hér við veiðar, einkum við Austurland. Einn þessara norsku útvegsmanna var athafnamaðurinn mikli Otto Wathne (1843-1898), sem hafði umsvif á Seyðisfirði, eins og kunnugt er.
Segja má að Norðmenn hafi kennt Íslendingum að veiða síld. Í Síldarannál Hreins Ragnarssonar er fyrst getið um síldveiðar Íslendinga 1869, m.a. kom þá síldarhlaup í Hafnarfjörð, „stór og feit hafsíld“. Talsvert var veitt af henni og notað í beitu því menn höfðu hvorki tunnur til að salta í né kunnu til slíkra verka. Svipuð staða var þá uppi annars staðar á landinu. Upp úr 1880 fara Íslendingar að komast á nokkurt skrið við þær síldveiðar sem þeim fannst ekki þörf á aldarfjórðungi fyrr. Árið 1881 var í fyrsta skipti söltuð síld á Siglufirði, einar 600 tunnur. Helstu söltunarstöðvar 19. aldar voru í Seyðisfirði og Eyjafirði og upp úr aldamótum 1900 á Siglufirði. Fyrstu síldarverksmiðjurnar risu á Siglufirði árið 1911. Þó að síldveiðar Íslendinga hafi byrjað á 19. öld, náðu þær sér fyrst almennilega á strik á þeirri tuttugustu – þeir komust á bragðið, Íslendingarnir, svona heldur betur.
Síldin er duttlungafull skepna og spekúlantar urðu að laga sig að kenjum hennar, en ekki öfugt. Um miðjan áratug heimstyrjaldarinnar fyrri færði hún sig til vesturs og hélt sig um tíma á vestanverðum Húnaflóa. Eftir að hún hafði þannig gert slóðir Flóabardaga að sínu kjörsvæði fór hún helst ekki austur fyrir Skaga – á meðan hún stóð við. Þar með beindust sjónir spekúlantanna að Strandabyggðum í Árneshreppi. Einn þeirra, Thorsteinn Thorsteinsson (1856-1924) kaupmaður og útgerðarmaður, sem af lítillæti kallaði sig aðeins Th, flutti síldarstöð sem hann hafði rekið á Hjalteyri að Eyri í Ingólfsfirði í lok fyrri heimstyrjaldarinnar (árið 1918)10Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur, bls 164. Hér eftir: Hrundar borgir.. Á árunum 1915-1918 voru reistar söltunarstöðvar fyrir síld á einum sjö stöðum í Árneshreppi – fleiri en einn aðili á sumum þeirra – og Djúpavík var einn þeirra. Fleiri aðilar leigðu lóðir í Ingólfsfirði, en ekki varð af framkvæmdum. Á fyrsta áratug 20. aldarinnar hafði Lars Sakse frá Stafangri sett upp stöð, og saltað í landi Kúvíkna í Reykjarfirði. Sú stöð gekk undir nafninu Hekla og var þar saltað í eitt eða tvö ár.11Hreinn Ragnarsson, „Söltunarstöðvar á 20. öld“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 290-293.
Árið 1915 leigði Elías Stefánsson (1879-1920) útgerðarmaður lóðir og aðstöðu á Djúpavík af Ágústi Guðmundssyni (1865-1915) bónda í Kjós. Elías var fæddur í Litla-Klofa, Landmannahreppi, Rangárvallasýslu, „ómenntaður maður, en fór í útgerð og lánaðist sú starfsemi það vel að eftir fá ár var hann talinn meðal auðugustu manna á Íslandi.“ Hann „var merkilegur maður fyrir margra hluta sakir, ekki þó vegna þess, að hann væri greindur umfram aðra menn eða virtist fjölhæfari, en það var eins og gæfan héldi fast í hönd með honum.“12Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 31. Þannig lýsir Magnús Stormur Magnússon (1892-1978) ritstjóri Elíasi. Elías var framkvæmdastjóri togarafélagsins Eggert Ólafsson h/f í Reykjavík sem stofnað var árið 1913. Hann saltaði á Oddeyri á Akureyri árin 1913-1917. Þar studdist hann einkum við verkafólk að sunnan og byggði yfir það hús sem löngum var kallað „Litla Reykjavík“.
Elías setti upp plön og bryggjur á Djúpavík, byggði íbúðarhús fyrir verkafólk og rak þar síldarútgerð og síldarsöltun. Þar með hófst atvinnustarfsemi og búseta á Djúpavík. Fyrsti íbúinn þar var Guðjón Jónsson (1865-1924), búfræðingur og smiður frá Stóru-Ávík, sem var ráðinn sem umsjónarmaður síldarsöltunarstöðvar Elíasar. Sumurin 1917-1919 voru talsverð umsvif á Djúpavík og störfuðu þar um 50-60 síldarstúlkur þegar mest gekk á, auk karlmanna við beykisstörf og aðra iðju.13Þorsteinn Helgason, „Frá hákarli til síldar. Atvinnu- og búsetuþróun í Árneshreppi á Ströndum 1850-1950“. BA ritgerð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands 2009, bls 20.
Að lokinni sumarvertíð árið 1919 voru horfur góðar. Mun meira hafði aflast af síld en næstu tvö ár á undan og söluhorfur þóttu góðar. Margir síldarsaltendur drógu að selja í þeirri von að fá hærra verð þegar frá liði og bundust óformlegum samtökum um að fara ekki niður fyrir ákveðið verð, 105 kr á tunnu.
Einn þeirra var Elías Stefánsson sem vildi fá 105 krónur fyrir tunnuna og stóð fastur á því þó að litlu lægra verð byðist. Í október hrundi verð á íslenskri síld og margir síldarsaltendur urðu fyrir þungum búsifjum14Jón Þ. Þór, Saga sjávarútvegs á Íslandi. Uppgangsskeið og barningsár 1902-1939. Vélaöld II. bindi, bls 197.. Elías var þeirra á meðal. Hann varð gjaldþrota og náði sér ekki aftur á strik og lést í desember árið eftir. Óskar Halldórsson (1893-1953), fyrirmynd Íslandsbersa í Guðsgjafarþulu, saltaði á Djúpavík árið 1920, en fór ekki jafn illa út úr verðhruninu og Elías.
Verðfallið á íslenskri síld haustið 1919 hefur verið kallað „síldarkrakkið“, eða „Krakkið“ og ástæður þess eru taldar þessar helstar:
- Vankunnátta og reynsluleysi Íslendinga í síldarviðskiptum.
- Ódýr síld frá Hollandi og Noregi keppti við íslensku síldina.
- Mikil áta var í íslensku síldinnni sem veiddist sumarið 1919 (galli).
- Síldin hélt sig norðvestanlands 1919 og var flutt nokkuð langa leið til söltunar á Norðurlandi og því tæpast nógu fersk. Sólríkt sumar bætti þar ekki úr skák.
- Mikið var saltað í gamlar og lélegar tunnur sem héldu illa pækli og þoldu ekki geymsluna, því skemmdist síldin.
- Fólk í helstu markaðslöndum hafði borðað mikið af síld á styrjaldarárunum og var orðið leitt á henni.
Otto Tulinius (1869-1948), útgerðarmaður á Akureyri, taldi meginástæðurnar vera offramleiðslu, litla vöruvöndun og að markaður fyrir stóra síld (íslenska síld) væri viðkvæmari en millisíld sem veiddist í Norðursjó.15Sama heimild, bls 197.
Í bók sinni Úngur eg var bregður Halldór Laxness (1902-1998) upp svipmynd af íslenskum síldarspekúlöntum í Kaupmannahöfn haustið 1919.
Þetta haust gerist það, að íslenskir síldargróssérar, þeir sem í Höfn sátu og voru að bíða þess að sumarsíldin 1919 stigi í verði, þá fóru þeir altíeinu að finna til sín einsog þeir væru soldáninn af Kuwait. Þeir sögðu upp vist sinni á dönskum hótelum, en keyptu hótel sjálfir handa sér og sínum vinum, öðrum íslandsgróssérum; en af slíkum moraði í borginni þó reyndar hefði verið sannað að íslendingar samanlagðir væru færri en íbúar í Istedgade. Hótelið hét Continental og lá á Kristjánshöfn.
Ég minnist þess ekki að hafa séð sögu skráða af hótel Continental. Minning þess hefur glutrast niður hjá öllum nema mér; en ég sver það var til og ég kom þángað nokkrum sinnum.16Halldór Laxness, Úngur eg var, bls 114-115.
Stundum er sagt að sagan endurtaki sig. Þetta er kannski lítið dæmi um það, eða man einhver eftir Hotel d‘Angleterre fyrir hrunið 2008?
Upp úr 1920 var ekki mikið um að vera á Djúpavík. Guðjón Jónsson lét af störfum sem umsjónarmaður árið 1921. En síldin átti þó enn eftir að koma við sögu Djúpavíkur.
Næsta síldarævintýri
Í árslok 1924 stofnuðu nokkur togarafélög syðra, með Alliance h/f í broddi fylkingar, félag til byggingar alhliða síldarverksmiðju. Þau keyptu Djúpavíkureignir og tryggðu sér aðstöðu þar. Félagið byggði síðan síldarverksmiðju á Sólbakka við Flateyri sem tók til starfa árið 1925, en hún varð gjaldþrota árið eftir.17Hreinn Ragnarsson, Síldarannáll, bls 167-168 og 170.
Árið 1933 voru uppi háværar kröfur um byggingu fleiri síldarverksmiðja, þar sem bræðslugeta í landi var mun minni en veiðigeta flotans. Flestir voru á þeirri skoðun að heppilegt væri að reisa slíka verksmiðju við Húnaflóa.18Sama heimild, bls 203.
Laugardaginn 22. desember 1934 var stofnað félagið h/f Djúpavík á fundi sem haldinn var á Hótel Borg. Helstu hluthafar voru Alliance í Reykjavík og Einar Þorgilsson & Co. í Hafnarfirði og hlutafé ákveðið 300.000 kr. Hlutafélagið tók við mannvirkjum og lóðaréttindum Alliance á Djúpavík og greiddi fyrir 60.000 krónur, sem var metið kostnaðarverð.19Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 37. Sumarið áður hafði hafist vinna við byggingu löndunar- og hafskipabryggju á Djúpavík, sem og bygging síldarverksmiðju. Byrjað að grafa grunn verksmiðjunnar í maí 1934. Hinn 7. júlí 1935 var gangsett síldarverksmiðja á tveimur hæðum, búin fullkomnustu tækjum til síldarbræðslu og mjölvinnslu. Þetta var ein fullkomnasta síldarverksmiðja í Evrópu og stærsta bygging sem reist hafði verið úr steinsteypu á Íslandi fram til þessa. Það má því kalla það talsvert afrek að rigga upp slíku mannvirki á um það bil ári – með þeirrar tíma tækni.
Garðar Þorsteinsson (1906-1979) fiskiðnfræðingur, sem þá var nýkominn heim frá námi í Halifax Kanada, hannaði verksmiðjuna, smíðaði löndunartækin og annaðist kaup á öllum vélbúnaði. Hann endurbætti lýsisbræðslutækin svo að þau skiluðu betri árangri en áður þekktist. Hönnun Garðars var algjör nýjung á heimsvísu. Löndunartækin skiluðu síldinni beint upp úr skipunum ofaní síldarþrærnar, sem voru inni í verksmiðjunni, þannig að löndunin var alveg vélvædd. Þetta fyrirkomulag sparaði sjómönnum mikið erfiði við síldarmokstur og akstur síldarvagna. „Meðal togaramanna er það almennt talið að erfiðast sé að landa síldinni,“ var skrifað í Ægi sumarið 1937.20Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 110. Þess má geta að Garðar Þorsteinsson hannaði síðar síldarverksmiðju Kveldúlfs á Hjalteyri við Eyjafjörð.21Birgir Sigurðsson, „Maður og síld“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 1. bindi, bls 335-336.
Hafís hafði eyðilagt allar gömlu bryggjur Elíasar Stefánssonar og húsnæði frá hans tíma hafði veðrast og laskast. Tveir gamlir timburbraggar stóðu uppi og í þeim var gist um sumarið 1934. Það dugði þó ekki til. Því brugðið á það ráð að sigla gamla strandferðaskipinu Suðurlandi til Djúpavíkur. Þar gátu um 30 manns gist. Á milliþilfari var skipstjóraíbúð, hásetaklefar, vistarverur stýrimanna, vélstjóra og bryta og var þar ágæt vist.22Jón Jónsson, „Sögusýning Djúpavíkur“. Glærur. Verr fór um þá sem urðu að híma neðanþilja og því kusu sumir frekar að sofa í tjaldi.23Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 100-101. Sagt er að rottugangur hafi verið um borð í skipinu þegar það kom til Djúpavíkur, en þær eru allar löngu horfnar. Einhverra hluta vegna hafa engar rottur náð að festa rætur í Strandasýslu að því að sagt er. Um þetta var ort.
Gnoð úr hafi skrautleg skreið,
skein á Alliance um leið.
Sagt var þá menn sæju fyrst
Suðurlandið rottum gist.
Andlátsstiga aftan frá
upp var kastað landið á.
Rottan grá og gleðirík,
gekk á land í Djúpavík.24Mögulega er Halldór Pétursson (1897-1989) höfundur vísnanna, sbr https://www.hugi.is/saga/greinar/121627/saga-sildarvinnslu-djupuvikur-i-hnotskurn/. Sótt 2021.11.10.
Starfræksla síldarverksmiðjunnar á Djúpavík hafði mikil áhrif á nærumhverfið og víðar. Á þeim árum voru þar stöðug verkefni fyrir vinnufúsar hendur. Bændur á nágrannabæjunum seldu þangað mjólk og kjöt milliliðalaust fyrir hærra verð en þeir ella hefðu fengið.25Jón Jónsson, Sögusýning Djúpavíkur. Glærur. Heimamenn gengu fyrir allri vinnu á Djúpavík.26Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 44. Það nýttu bændur og búalið sér óspart. Fólk frá Veiðileysu, Kambi, Kúvíkum, Kjós, Reykjarfirði og Naustavík annaðhvort flutti til Djúpavíkur eða vann þar. Sumir fluttust lengra að. Sem dæmi má nefna að árið 1935 fluttust þau Pétur Friðriksson (1887-1979) og Sigríður Elín Jónsdóttir (1893-1984) frá Skjaldabjarnarvík að Reykjarfirði og hafði bygging síldarverksmiðjunnar á Djúpavík mikil áhrif á þá ákvörðun.27Matthías Pétursson, „Búskaparár Péturs Friðrikssonar og Sigríðar Elínar Jónsdóttur í Reykjarfirði árin 1935 til 1953“. Strandapósturinn XXXII 2001, bls 62-102, 75.
Starfsfólk síldarverksmiðjunnar kom auðvitað víðar að en af næstu bæjum. Fyrir utan Garðar, sem áður hefur verið nefndur, stjórnaði Helgi Eyjólfsson (1906-1995), byggingarmeistari úr Reykjavík, byggingu verksmiðjunnar.28Helgi stýrði líka byggingu síldarverksmiðjanna á Eyri í Ingólfsfirði og á Hjalteyri við Eyjafjörð. Sigurður Thoroddsen (1902-1983) verkfræðingur teiknaði bryggjur, tanka og reykháf. Guðmundur Pétursson (1891-1993) frá Bæ í Trékyllisvík var yfirsmiður við smíði bryggjanna og Guðmundur Guðjónsson (1903-1966) arkitekt teiknaði verksmiðjuhúsið og hafði eftirlit með verkinu. Hann varð síðar framkvæmdastjóri Djúpavíkur hf. Kona hans var Ragnheiður Elísabet Henrietta Hansen (1912-1983). Þau hjón voru vinsæl og vel látin meðal allra íbúa Djúpavíkur. Oft var leitað til Ragnheiðar þegar læknislaust var í plássinu. Kjördóttir þeirra var María Guðmundsdóttir sem varð fegurðardrottning Íslands árið 1961 og heimsfræg fyrirsæta, en hún ólst upp á Djúpavík til 11 ára aldurs.
Þann tíma sem síldarbræðsla fór fram á Djúpavík voru um 60 fastir starfsmenn í verksmiðjunni. Við síldarsöltun unnu þar að auki á annað hundrað manns. Þar fyrir utan var fólk á skrifstofu og í mötuneyti. Þá var rekin sumarverslun fyrir skipin og starfsfólkið, bakarí og símstöð.29Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 43. Yfir sumartímann var yfirleitt læknir á Djúpavík.30Jón Jónsson, Sögusýning Djúpavíkur. Glærur. Líklega hafa verið um 140-150 manns á Djúpavík yfir sumartímann að jafnaði. Þegar skip komu til löndunar, eða Færeyingar leituðu í var undan brælu á miðunum, fjölgaði um stund í plássinu. Þar hefur líklega oft verið glatt á hjalla, þó að það skíni í gegnum allar heimildir að lífið á Djúpavík snerist fyrst og síðast um vinnu. En allir voru sáttir við það.
Hluti verksmiðjunnar var nýttur sem sláturhús eftir að sumarvertíðinni lauk. Að henni lokinni fækkaði fólki á Djúpavík verulega.
Sálarfræði síldarinnar hafði einlægt verið útgerðinni ráðgáta og dutlúngar þessa fisks voru alment dregnir í dilk með óþekt í krökkum eða dintum í kvenfólki.31Halldór Kiljan Laxness, Guðsgjafarþula, bls 179.
Svo farast Halldóri Laxness orð í Guðsgjafarþulu og hann skaut ekki framhjá markinu. Síldin færði mönnum ofsgróða og steypti þeim í örbirgð. Hún skóp byggðarkjarna á afskekktum stöðum og lagði þá í eyði þegar henni þóknaðist að flytja sig um set, því auðvitað eltu allir síldina. Hagnaður verksmiðjunnar á Djúpavík borgaði stofnkostnaðinn upp á tveimur sumrum.32Birgir Sigurðsson, „Maður og síld“, bls 336.
Á síldinni öll erum orðin rík
á Ingólfsfirði og Djúpavík.
orti einhver hagorður í gleðivímunni. Halldór Pétursson (1897-1989), kennari og steinasafnari, frá Hróarstungu í Norður-Múlasýslu, lengst af búsettur í Kópavogi, dvaldi og starfaði á Djúpavík sumrin 1935-1938. Hann orti innblásið kvæði um staðinn sem endar á þessu erindi:
Þú ert draumur dagsins nýja,
Djúpavíkin kær;
Hamrar rísa á hendur báðar,
hlær við trylltur sær.
Hér skal tímans trú á máttinn,
treysta vígin sín,
meðan andinn efnið mótar,
afl í vélum hvín.33Halldór Pétursson, "Djúpavík 1935-52". Strandapósturinn XXXVIII 2006, bls 19-21.
Það er ekki hægt að segja annað en að menn hafi verið dálítið upphafnir af velgengninni og fullir trúar á framtíðina. Þess vegna var gefið í og afkastageta verksmiðjunnar tvöfölduð árið 1937.34Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 115.
Næstu 15 árin, eða svo, var verksmiðjan á Djúpavík starfrækt og framleiddi bæði mjöl og lýsi, auk þess sem síld var þar söltuð í tunnur. Síðan fjaraði starfsemin út. Verksmiðjunni var lokað árið 195235Haukur Jóhannesson, „Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum“. Í strandbyggðum norðan lands og vestan. Árbók Ferðafélags Íslands 2000, bls 45-117, 57. en síðast var þar saltað árið 1959.36Benedikt Sigurðsson og fleiri, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 340. Árið 1957 hafði síldin aftur flutt sig austur á bóginn og því farið að huga að aukinni bræðslugetu á Austfjörðum. Verksmiðjan á Seyðisfirði var stækkuð og hluti tækjanna úr síldarverksmiðjunni á Djúpavík fluttur þangað.37Hreinn Ragnarson og Steinar J. Lúðvíksson, „Annálar“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 268. Hlutafélagið Djúpavík var svo leyst upp árið 1968, eftir að hafa starfað í 34 ár.
Fólk, sem hafði tekið sér bólfestu á Djúpavík bjó þar áfram eftir að síldarævintýrinu lauk. Menn gáfu ekki strax upp vonina og vélum og tækjum verksmiðjunnar var haldið við í nokkur ár eftir að starfseminni var í raun hætt. Íbúar Djúpavíkur reyndu að tryggja afkomu sína með því að gera út vélbáta til þorskveiða, bræða karfa og taka á móti afla af togurum til vinnslu.
Sumarið 1982 bjuggu á Djúpavík 23 einstaklingar, en um haustið fluttust fjórar fjölskyldur, alls 20 manns, í burtu. Eftir urðu 3 manneskjur og þær fóru einnig árið eftir. Þar með var Djúpavík komin í eyði eftir ríflega 60 ára búsetutímabil.
Nýtt tímabil athafna hefst
Árið 1985 komu ung hjón til Djúpavíkur, festu kaup á gömlu síldarverksmiðjunni og ætluðu sér að leggja þar stund á fiskeldi, sem sumarstarf. Fyrirmynd þeirra var systurverksmiðjan á Hjalteyri, en þar hafði einmitt verið byrjað á fiskeldi. Þetta voru þau Eva Sigurbjörnsdóttir – leikskólakennari, ættuð frá Akureyri – og Ásbjörn Þorgilsson járnsmiður. Afi hans, Magnús Hannibalsson, hafði saltað í Ingólfsfirði og búið á Djúpavík og þessi tengsl drógu hann á staðinn. Fljótlega varð þeim ljóst að framtíð þeirra lá ekki í fiskeldi og óhagkvæmt að búa á tveimur stöðum. Þau ákváðu því að flytjast til Djúpavíkur og freista gæfunnar með eigin atvinnurekstur. Þau keyptu Kvennabraggann og hófu hótelrekstur sem enn stendur með blóma.38„Skundi litli á ferð og flugi“. Viðtal við Evu Sigurbjörnsdóttur, http://youtu.be/TMWDzPWRp3w. Sótt 2015.10.07.
Hótelið er opið allt árið. Í því eru átta tveggja manna herbergi með handlaugum. Þar eru góðar snyrtingar með sturtum og setustofur á báðum hæðum. Auk þess er boðið upp á gistingu í tveimur húsum í plássinu, Álfasteini og Lækjarkoti. Á hótelinu er borðsalur sem rúmar allt að 60 manns í sæti. Hægt er að fá morgunverð, hádegisverð, kvöldverð og smárétti. Kaffi og meðlæti fæst allan daginn. Boðið er upp á skoðunarferðir (1,5 klst) um verksmiðjuna tvisvar á dag yfir sumarið.39Vefur Hótels Djúpavíkur, https://djupavik.is/. Sótt 2021.11.10.
Í ársbyrjun 2016 tók Magnús Karl Pétursson við hótelstjórn í Djúpavík af tengdarmóður sinni Evu Sigurbjörnsdóttur, en hún hafði þá, ásamt eiginmanni sínum Ásbirni Þorgilssyni, rekið hótel á staðnum í 31 ár.
Byggðin í Djúpavík er fráleitt á undanhaldi. Árið 1993 var reist hús á lóð Vilborgar Traustadóttur sem nefnist Skjaldabjarnarvík. Árið 2009 flutti Héðinn Birnir Ásbjörnsson hús vestur og setti niður á gömlu kaupfélagslóðinni sem hann hafði eignast. Nýlega hafa risið tvö ný hús í Djúpavík, reist af afkomendum fólks sem áður bjó í Djúpavík. Flest eldri húsin hafa verið tekin til kostanna þannig að myndarbragur er yfir þorpinu.40„Hús Geirs Fannars Zoega risið í Djúpavík“, https://trolli.is/hus-geirs-fannars-zoega-risid-i-djupavik/.
Listalíf á Djúpavík
Djúpavík á Ströndum Einhverra hluta vegna er fátt eins dapurlegt og yfirgefin verksmiðja Hér vappar flekkóttur hundur framan við hótelið. Hann kemur til mín og ég klappa honum. Það er bensín- lykt af feldinum Ymurinn frá fossinum er hár og samfelldur og smýgur inn í alla drauma á þessum stað, bæði þá brostnu og hina Gyrðir Elíasson
Þó að síldin hafi yfirgefið Djúpavík og fólki fækkað þar mikið frá því hæst hóaði, er ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst síðan síldin kvaddi. Staðurinn hefur heillað fjölmarga, ekki síst listamenn af ýmsu tagi.
Hrafn Gunnlaugsson gerði kvikmyndina Blóðrautt sólarlag árið 1977, sem var tekin upp á Djúpavík sumarið á undan. Myndin fjallar um tvo Reykvíkinga sem ákveða að halda í sumarleyfi í eyðiþorp úti á landi, klyfjaðir brennivíni, byssum og skotfærum. Ferðin er hugsuð sem skemmtiferð úti í náttúrunni en fljótlega breytist hún í hreina hrollvekju. Aðalleikendur voru vanir menn, Helgi Skúlason, Róbert Arnfinnsson og Rúrik Haraldsson. Gunnar Þórðarson sá um tónlistina og RÚV framleiddi.41http://www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/468. Sótt 2015.09.10.
Myndin var sýnd í sjónvarpi allra landsmanna 1977 og var umdeild, eins og fleiri myndir Hrafns Gunnlaugssonar. Hinn 10. október 1977 barst menntamálaráðuneytinu samþykkt aðalfundar Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga frá 27. september s.á. þar sem skorað var „á íslenska sjónvarpið og menntamálaráðuneytið að standa ekki framar að gerð slíkrar myndar sem „Blóðrautt sólarlag“ er, þar sem við teljum að þessi mynd hafi hvorki menningarlegt né listrænt gildi. Er það líka skoðun fundarins að myndin sé óæskileg landkynning.“42Ágúst Einarsson. Hagræn áhrif kvikmyndarlistar. Háskólinn á Bifröst, 2012, bls 117. Svava Jónsdóttir, ekkja Halldórs Péturssonar, skrifaði hótelhöldurum á Djúpavík bréf árið 1993 og sendi þeim kvæði sem maður hennar hafði ort um Djúpavík, sjá hér að framan. Í bréfinu lýsir hún hrifningu Halldórs á staðnum og Strandamönnum yfirleitt og skrifar síðan: „Ég gleymi ekki þegar myndin „Blóðrautt sólarlag“ var sýnd í sjónvarpinu hvað honum þótti það miður.“43Halldór Pétursson, „Djúpavík 1935-52“. Strandapósturinn XXXVIII 2006, bls 22.
Árið 1988 gerðu Finnbogi Hermannsson og Hjálmtýr Heiðdal heimildamyndina „Af síldinni öll erum orðin rík“ sem fjallar um síldarævintýrið í Árneshreppi á Ströndum (Ingólfsfirði og Djúpavík). María Guðmundsdóttir, ljósmyndari og fyrrverandi fyrirsæta gerði myndina „Ferðin heim – smásögur úr Árneshreppi á Ströndum“ ásamt Vigdísi Grímsdóttur, rithöfundi og Önnu Dís Ólafsdóttur. Fleiri kvikmyndir hafa verið gerðar þar sem Djúpavík kemur meira og minna við sögu, án þess að farið verði nánar út í það hér. Veturinn 2012 var þar kvikmyndahópur að störfum.44„Skundi litli á ferð og flugi“. Viðtal við Evu Sigurbjörnsdóttur, http://youtu.be/TMWDzPWRp3w. Sótt 2015.10.07. Haustið 2016 fóru þar fram tökur sem tengdust gerð myndarinnar Justice League, sem síðar var sýnd í kvikmyndahúsum í Reykjavík.45„Þrjár þyrlur og fimm einkaþotur á Ströndum vegna Justice League“, Vísir.is,
Fleiri menningaratburðir hafa farið fram í síldarverksmiðjunni á Djúpavík. Árið 1994 var „Lífið er lottery“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni sýnt. Árið 1996 var flutt leikritið „Á sama bekk“ eftir Sævar Sigurgeirsson og árið 1997 leikritið „Jóðlíf“ eftir Odd Björnsson.
Á árunum 1998-2002 voru haldnir dansleikir á Djúpavík á sumrum til að krydda tilveruna.
Þann 7. júlí 2003, þegar nákvæmlega 68 ár voru liðin frá því að síldarverksmiðjan var fyrst gangsett, var opnuð sögusýning í einum sal verksmiðjunnar. Hótelhaldararnir á Djúpavík, Eva og Ásbjörn, stóðu fyrir sýningunnni, sem stendur enn og er hluti af skoðunarferð um verksmiðjuna sem boðið er upp á.
Sumarið 2006 hélt hljómsveitin Sigurrós tónleika í síldarverksmiðjunni. Fleiri tónlistarmenn hafa sótt Djúpavík heim og má nefna Tómas Einarsson, Ómar Guðjónsson, Halla Reynis, Heiðu Ólafs, Helvar, Svavar Knút og Kristjönu Stefánsdóttur. Í ágúst 2010 flutti Jona Byron nýsamið lag, Changing Of The Hours, í einum lýsistankinum við gömlu síldarverksmiðjuna í Djúpavík, þar sem Sigurrós hafði haldið tónleika fjórum árum fyrr.
Skákmót og skákhátíðir hafa farið fram á Djúpavík sem og listsýningar. Árið 2007 hélt Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður þar sýningu sem hún nefndi „Undir áhrifum“. Meðal annarra listamanna sem hafa sýnt á Djúpavík eru Bergrún Íris Sævarsdóttir, Hanna Margét Einarsdóttir, Helga A. Jónsdóttir, Jóna I. Bjarnadóttir, Theo Sanders og Guðjón Kristinsson.
Djúpavík hefur heillað marga ljósmyndara, t.d. var Spessi með sýningu þar sumarið 2013. Árið 2003 las þýski ljósmyndarinn Claus Sterneck grein um Djúpavík sem breytti lífi hans. Tveimur mánuðum síðar var hann mættur á staðinn. Næstu ár kom hann þangað á hverju sumri og árið 2008 flutti hann til Íslands og býr nú í Reykjavík og starfar sem bréfberi. Hann hefur haldið ásamt öðrum ljósmyndasýningar á Djúpavík og víðar. Frá árinu 2013 hafa sýningarnar borið nafnið Steypa, sem vísar í efnivið síldarverksmiðjunnar í Djúpavík.
Það hefur því reynst vera líf á Djúpavík eftir síld – og það meira að segja fjölbreytt líf, fullt af viðburðum, listum og menningu. Ekki verður betur séð en að byggðin þar sé að vaxa. Þannig að Djúpavík er ekki svo lonely, þegar allt kemur til alls.
Sumarið 2014 átti ég eftirmiðdag, kvöld og nótt á Djúpavík; snæddi léttsaltaðan, soðinn þorsk, sem var algjörlega frábær og gisti í Álfasteini. Þá skoðaði ég Steypu 2014. Og hvort sem vegurinn endar á Djúpavík eða ekki, þá ætla ég að enda hér með nokkrum myndum sem ég tók á Djúpavík í júlí 2014, m.a. af ljósmyndasýningunni Steypu 2014.
Þessi pistill er lítillega breyttur texti erindis sem ég hélt á Öskjufundi í Þjóðskjalasafni haustið 2015. Ég tók flestar litmyndirnar sumarið 2014 og bjó einnig til skýringarmyndir og myndrit.
Tilvísanir
1 | Jonas Löfvendahl, „The World’s Lonliest Hotel“. WOW Magazine 2. tbl. 2015, bls. 64-66. |
---|---|
2 | „Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Tillaga að matsáætlun“, https://www.verkis.is/media/pdf/13029003-4-SK-0019-Hvala-tillaga-ad-matsaetlun.pdf. Sótt 2021.11.10. |
3 | Þórðbergur Þórðarson, Edda Þórbergs Þórðarsonar. Reykjavík: Mál og menning, önnur útgáfa, aukin, þriðja prentun, 1981, bls. 162-164. |
4 | Jón Guðnason, Strandamenn, æviskrár 1703-1953, bls 226. |
5 | Sama heimild, bls 457. |
6 | Þórbergur Þórðarson, Íslenzkur aðall, bls 152. |
7 | https://heimspeki.hi.is/?page_id=234. Sótt 2015.09.03. |
8 | Alþýðublaðið, 2. október 1954, bls 7-8. Sótt á www.timarit.is 2015.09.03. |
9 | „Um verzlun Íslands. Bréf frá kaupmanni í Noregi til Jóns Sigurðssonar“. Ný Félagsrit, 16. árg. 1856, bls 111-139, 115. |
10 | Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, Djúpavík, Ingólfsfjörður og Gjögur, bls 164. Hér eftir: Hrundar borgir. |
11 | Hreinn Ragnarsson, „Söltunarstöðvar á 20. öld“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 290-293. |
12 | Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 31. |
13 | Þorsteinn Helgason, „Frá hákarli til síldar. Atvinnu- og búsetuþróun í Árneshreppi á Ströndum 1850-1950“. BA ritgerð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands 2009, bls 20. |
14 | Jón Þ. Þór, Saga sjávarútvegs á Íslandi. Uppgangsskeið og barningsár 1902-1939. Vélaöld II. bindi, bls 197. |
15 | Sama heimild, bls 197. |
16 | Halldór Laxness, Úngur eg var, bls 114-115. |
17 | Hreinn Ragnarsson, Síldarannáll, bls 167-168 og 170. |
18 | Sama heimild, bls 203. |
19 | Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 37. |
20 | Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 110. |
21 | Birgir Sigurðsson, „Maður og síld“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 1. bindi, bls 335-336. |
22 | Jón Jónsson, „Sögusýning Djúpavíkur“. Glærur. |
23 | Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 100-101. |
24 | Mögulega er Halldór Pétursson (1897-1989) höfundur vísnanna, sbr https://www.hugi.is/saga/greinar/121627/saga-sildarvinnslu-djupuvikur-i-hnotskurn/. Sótt 2021.11.10. |
25, 30 | Jón Jónsson, Sögusýning Djúpavíkur. Glærur. |
26 | Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 44. |
27 | Matthías Pétursson, „Búskaparár Péturs Friðrikssonar og Sigríðar Elínar Jónsdóttur í Reykjarfirði árin 1935 til 1953“. Strandapósturinn XXXII 2001, bls 62-102, 75. |
28 | Helgi stýrði líka byggingu síldarverksmiðjanna á Eyri í Ingólfsfirði og á Hjalteyri við Eyjafjörð. |
29 | Þorsteinn Matthíasson, Hrundar borgir, bls 43. |
31 | Halldór Kiljan Laxness, Guðsgjafarþula, bls 179. |
32 | Birgir Sigurðsson, „Maður og síld“, bls 336. |
33 | Halldór Pétursson, "Djúpavík 1935-52". Strandapósturinn XXXVIII 2006, bls 19-21. |
34 | Guðni Th. Jóhannesson, „Síldarbræðsla“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 115. |
35 | Haukur Jóhannesson, „Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum“. Í strandbyggðum norðan lands og vestan. Árbók Ferðafélags Íslands 2000, bls 45-117, 57. |
36 | Benedikt Sigurðsson og fleiri, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 340. |
37 | Hreinn Ragnarson og Steinar J. Lúðvíksson, „Annálar“, Silfur hafsins. Gull Íslands. Síldarsaga Íslendinga 3. bindi, bls 268. |
38, 44 | „Skundi litli á ferð og flugi“. Viðtal við Evu Sigurbjörnsdóttur, http://youtu.be/TMWDzPWRp3w. Sótt 2015.10.07. |
39 | Vefur Hótels Djúpavíkur, https://djupavik.is/. Sótt 2021.11.10. |
40 | „Hús Geirs Fannars Zoega risið í Djúpavík“, https://trolli.is/hus-geirs-fannars-zoega-risid-i-djupavik/. |
41 | http://www.kvikmyndavefurinn.is/films/nr/468. Sótt 2015.09.10. |
42 | Ágúst Einarsson. Hagræn áhrif kvikmyndarlistar. Háskólinn á Bifröst, 2012, bls 117. |
43 | Halldór Pétursson, „Djúpavík 1935-52“. Strandapósturinn XXXVIII 2006, bls 22. |
45 | „Þrjár þyrlur og fimm einkaþotur á Ströndum vegna Justice League“, Vísir.is, |