Staður og stund

Minnispunktar ferðalangs

Fornihvammur í Norðurárdal

Frá landnámi fram til 19. aldar

Myndina hér að ofan tók greinarhöfundur 24. júlí 2021. Frekar er eyðilegt um að litast í Fornahvammi. Svo hefur verið um langan aldur, en þar hefur líka verið líf og fjör og búseta sem skipti miklu máli fyrir þá sem áttu leið um Holtavörðuheiði. Til vintri er svína­húsið, sem nú gegnir hlutverki leitarskála. Örlítið hægra megin við miðja mynd er upphækkað plan. Þar stóð gisihúsið eða hótelið, sem sjá má á mynd hér fyrir neðan.

Í fornritum er þess getið að Helgi Rauða-Björnsson hafi búið í Hvammi í Norðurárdal.1Landnáma (Sturlubók), 25. kafli. Hænsa-Þóris saga, 1. og 13. kafli. Ekki kemur fram hvar sá bær hafi verið og má velta fyrir sér hvort hann hafi upphaflega staðið þar sem Fornihvammur er nú, en verið síðar fluttur neðar í dalinn þar sem kirkjustaðurinn Hvammur stendur nú fyrir neðan Hvammsmúla, vestan Litluár. Heitið Forni-Hvammur gæti þá verið til aðgreiningar frá nýja staðnum.

Ólafur Lárusson getur þess að Fornihvammur hafi verið í byggð árin 1658-1676,2Ólafur Lárusson, „Kirkjuból“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 46. árg., 1937-1939, bls. 19-56 (53). en greinir ekki frá heimildum þar um. Þær eru þöglar um frekari búsetu þar allmörg næstu ár. Ekkert er minnst á byggð í Fornahvammi í manntalinu 1703. Í lýsingu jarðarinnar árið 1708 í Jarðabók Árna og Páls segir:

Forne Hvammur, forn eyðijörð. Liggur undir beneficium Hvamm í Norðurárdal. Hefur í auðn verið næstliðin 22 ár. Átján árum þar fyrir (eður um það skeið) var hjer á fornu eyðibóli lítilfjörlig bygð uppreist, en hvað mörg hundruð ár áður hafði það í auðn verið, veit enginn að segja. Þá stund, sem bygðin átti að heita viðhjeldist, lá þó kotið öðruhvörju í auðn, tvö ár í bili eða lengur.3Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1925 og 1927), bls. 300.

Þarna kemur fram að vitneskja hafi verið um búsetu í Forna­­hvammi á tímabilinu 1668-1686, sem ber ekki alveg saman við tímabilið sem Ólafur Lárusson tilgreinir.

Í Jarðabókinni er þess er ennfremur getið að átroðningur af afréttarpeningi og vermönnum hafi verið mikill, vetrarríki mikið og kirkjuvegur of langur. Allt séu þetta ástæður þess að byggð hafi lagst af í Fornahvammi. Jón Johnsen hefur eftir jarðamati frá 1804 að Hvamms­kirkju­eyðijörðin Fornihvammur „sé óbyggjandi, af því hún er of lángt frá bygðum bólum“.4J. Johnsen, Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu. … Lesa meira...

Í manntölunum 1762 og 1801 til og með 1850 er hvergi minnst á Fornhvamm eða búsetu þar.

Í sóknarlýsingu Hvamms- og Norðtungusókna frá 1840 eftir séra Jón Magnússon (1773-1850) er getið um sæluhús skammt fyrir framan Hvassá sem kallaðist „í Fornahvammi, byggt án viðar nema einasta hurð og dyraumbúningur.“5Mýra- og Borgarsfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873. Guðrún Ása Grímsdóttir og Björk Ingimundardóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík: … Lesa meira... Sæluhús þetta mun hafa verið reist árið 1831 á vegum Fjallvegafélagsins, sem lét einnig varða Holta­vörðu­heiði á eigin kostnað.6Sigurveig Jónsdóttir og Helga Guðrún Johnson, Það er kominn gestur. Saga ferðaþjónustu á Íslandi. Reykjavík, Bókaútgáfan Opna ehf., 2014, bls. 31. Í umfjöllun sinni um eyðibýli í Norðurár­dal minnist séra Jón ekki á Fornahvamm.

Mörk og eignarhald

Í landamerkjabréfi Fornahvamms, dagsettu 21. janúar 1889 og þinglýstu 20. maí 1890, segir:

Frá Norðurá ræður Hvassá landamærum norður í vestara Kambshorn; úr vestara Kambshorni norður háfjallakamb í Sandkvísl. Svo ræður Sandkvísl ofan í Holtavörðuvatnsós. Þaðan Norðurá þangað til Hvassá fellur í hana.7 Úrskurður óbyggðanefndar. Mál nr. 2/2014. Hluti fyrrum Norðurárdalshrepps. Óbyggðanefnd, 11. október 2016, bls. 106.

Eins og fram kemur í Jarðabókinni var Fornihvammur löngum eign Hvammskirkju í Norðurárdal og hélst sú skipan allt þar til Davíð Stefánsson kaupir jörðina árið 1909 á 900 krónur.

Þann 7. febrúar 1914 selur hinn sami Davíð upprekstrarfélagi Þverárréttar framhluta Fornahvamms á 1.000 krónur. Mörk svæðissins eru þannig skilgreind í kaupsamingi:

Að sunnan ræður Norðurá, frá svo nefndnum Krók, skammt fyrir neðan efri Búrfellsá, til Holtavörðuvatns, þaðan eins og merki ráða nú milli Mela og Fornahvamms uppí Snjófjöll; að vestan ræður Snjófjallakambur í svonefnt austurkambshorn, þaðan í efra Búrfell eptir svokölluðu Stórholti suður í áður nefndan Krók.8Sama heimild, bls. 107.

Þann 11. júní 1926 seldi Davíð svo ríkissjóði, fyrir hönd Vegagerðar ríkisins, Fornahvamm „með öllum húsum, girðingum og öllum gögnum og gæðum sem jörðinni fylgja fyrir umsamið kaupverð kr. 5750.00“.9Sama heimild, bls. 108. Sama ár keypti ríkissjóður einnig eyðibýlið Hlíð, sem er vestan Hvassár og þar með voru þessar jarðir í raun sameinaðar.10Sama heimild, bls. 110.

Hlíð

Í Jarðabók Árna og Páls er getið um nýtt „hjáleigutetur … þar sem aldrei hafði fyrri bygð verið; varaði bygðin í ár alleina, þó ekki fult.“11 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV, bls 300. Þó að þarna sé ekki rakin löng byggðarsaga bar hjáleigutetrið þó þrjú nöfn samkvæmt Jarðabókinni, Hlíðarkot, Hvassárhlíð og Hlíðarendi. Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 er í neðanmálsgrein getið um að „eyðihjáleigan Hlíðarendi sé höfð … til beitar“ frá Sveina­tungu og vísað í jarðarmatsbók frá 1804.12J. Johnsen, Jarðatal á Íslandi, bls. 126. Líklegt verður að teljast að þarna sé um eyðibýlið Hlíð að ræða, sem Vegagerðin keypti árið 1926 ásamt Forna­hvammi, eins og áður segir. Árið 1856 hófu þar búskap hjónin Jósef Helgason (1817-1865) og Sigríður Einarsdóttir (1828-). Síðan var búið þar óslitið til ársins 1882, en ekki eftir það, ef undan er skilið árið 1886, en þá var þar húsmaður í eitt ár Andrés Guðmundsson (1842-1897) ásamt konu sinni Sesselju Jónsdóttur (1832-1890).

Endurreist byggð í Fornahvammi

1853-1880

Árið 1853 byggði Einar Gíslason (1818-1880) bæ í Fornahvammi og flutti þangað ásamt konu sinni Önnu Sigríði Bjarnadóttur (1824-1893) og dóttur þeirra Petrínu Sigríði (1844-1906). Einar var sonur Gísla Magnússonar (1788-1852) bónda á Litlu-Hvalsá og konu hans Helgu Jónsdóttur (1792-1824). Um Gísla segir í Strandamönnum: „Einhver helzti merkismaður“.13Jón Guðnason, Strandamenn, æviskrár 1703-1953. Reykjavík, 1955, bls. 136. Anna Sigríður var dóttir Bjarna Friðrikssonar Thorarensen (1791-1849) stúdents og bónda í Bæ í Hrútafirði, síðar á Stóra-Ósi í Miðfirði og fyrri konu hans Önnu Jónsdóttur (1791-1827). Bjarni var „gervilegur maður og söngmaður góður“14Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1948, bls. 164..

Einar og Anna Sigríður höfðu áður búið á Kollsá í Hrútafirði og í Stórholti í Saurbæ í Dalasýslu. Þau bjuggu oftast við þröngan kost í Fornahvammi, en gátu þó ávallt greitt fyrir ferðamönnum sem áttu leið um Holtavörðuheiði og hýst þá og tóku jafnvel ekki alltaf gjald fyrir greiðann. Þau þóttu góð heim að sækja og Einar var gleði­maður og „talinn með beztu söngmönnum á sínum tíma“15Jósef Jónsson, „Fornihvammur“. Óðinn, 22. árg., 1926, bls. 67-69 (69). og var m.a. forsöngvari í Hvammskirkju.16Kristleifur Þorsteinsson, „Þáttur af Kjartani Gíslasyni“, Jólablað Tímans, 24. desember 1952, bls. 5.

Hvammskirkja í Norðurárdal
Hvammskirkja í Norðurárdal. Ljósmynd BJ 2021.

Einar Gíslason og Anna Bjarnadóttir bjuggu í Fornahvammi árin 1853-1880. Á búskapartíma þeirra bjuggu þessir einstaklingar einnig í Fornahvammi í tvíbýli við þau.

1864-1865Eggert Jósefsson (1841-1870) og Málfríður Jónsdóttir (1842-1887). Þau komu frá Óspaksstaðaseli17ÞÍ, Kirknasafn. Prestsþjónustubók Staðar í Hrútafirði 1816-1864, bls. 166. og bjuggu síðar m.a. á Krossi í Haukadal, Dalasýslu. Eggert drukknaði í fiskiróðri frá Vatnsleysuströnd árið 1870 og Málmfríður fór til Vesturheims árið 1883 frá Fitjum í Hrófbergshreppi, Strandasýslu.18Jón Guðnason, Dalamenn, æviskrár 1703-1961 I. (Reykjavík 1961), bls. 292-293. Júníus Kristinsson, Vesturfaraskrá 1870-1914 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Hákóla Íslands, 1983), bls. 206.
1865-1867Guðmundur Björnsson (1829-1873) og Helga Brandsdóttir (1829-1903), sem höfðu áður verið í húsmennsku í Fornahvammi árin 1862-1863.19ÞÍ, Kirknasafn. Sóknarmannatal Hvamms í Norðurárdal 1862. Þau bjuggu áður í Múlakoti í Stafholtstungum og síðar á Bjargarsteini í sama hreppi.20Íslendingabók.
1867-1868Kjartan Gíslason (1819-1901), Kúa-Kjartan, og Ingibjörg Loftsdóttir (1802-1873), Þau bjuggu áður á Refsstöðum í Hálsasveit og síðar í Síðumúla í Hvítársíðu. Kjartan var gáfumaður og fræðimaður.21Sjá: Kristleifur Þorsteinsson, "Þáttur af Kjartani Gíslasyni", Jólablað Tímans, 24. desember 1952, bls. 4-6.

1880-1883

Þegar Einar Gíslason lést árið 1880 tók Jón Jónsson (1845-1906) við bús­forráðum í Fornahvammi næstu þrjú árin, eða þar til hann flutti að Króki og síðar að Hermundarstöðum í Þverárhlíð þar sem hann bjó til æviloka. Jón var faðir Guðjóns, sem síðar bjó skamma stund í Fornahvammi og síðan á Hermundarstöðum, sjá síðar.

1883-1900

Árið 1883 byggði Davíð Bjarnason (1822-1904) myndarlegan bæ í Fornahvammi og flutti þangað ásamt konu sinni, Þórdísi Jóns­dóttur (1830-1895).

Davíð var sonur Bjarna Daníelssonar (1792-1823) bónda á Þórodds­stöðum í Hrútafirði og seinni konu hans Guðbjargar Jónsdóttur (1793-1877). Þórdís var dóttir Jóns Jónssonar „yngra“ (1798-1851) bónda á Hlaðhamri í Hrútafirði og konu hans Guðrúnar Gísladóttur (1799-1866). Eftir fáein ár í vinnu­mennsku í Hrútafirði lá leið þeirra hjóna suður í Dali og hófu þau búskap að Snóksdal í Miðdölum árið 1853 og bjuggu þar til ársins 1856. Síðan voru þau í vinnumennsku í Hörðudal. Árið 1862 reistu þau nýbýlið Gilhaga á svonefndum Meladal fram af Hrútafirði að ráði og með tilstyrk Jóns Jónssonar bónda á Melum. Þar bjuggu þau í 13 ár og búnaðist vel. Árið 1875 fluttust þau að Þóroddsstöðum í Hrútafirði og tveimur árum seinna að Melum þar sem þau bjuggu í sex ár. Þaðan fluttu þau að Forna­hvammi og byggðu rúmgóðan bæ strax á fyrsta ári. Dæmi voru um að þar hafi gist um 20 manns í einu og fengu ferðalangar þar ævinlega góðan beina og aðhlynningu. Í Forna­hvammi bjuggu þau þar til Þórdís lést árið 1895. Davíð hélt áfram búskap og eignaðist soninn Daníel árið 1896 með Guðbjörgu Jóhannesdóttur vinnukonu í Fornahvammi. Aldamótaárið 1900 fluttist Davíð til Ameríku með son sinn Daníel. Þar bjó hann hjá Bjarna syni sínum til dauðadags árið 1904.22Jósef Jónsson, „Fornihvammur“, Óðinn 22. árg., 1926, bls. 67-69.

Davíð Bjarnason var góður smiður á tré og járn og iðjusamur. Hann starfaði víða við smíðar. Hann var sagður afrendur að afli, skapstór og rómsterkur. Þórdís kona hans var dugnaðar- og verkakona og lék allt í höndum hennar. Hún var vinsæl af heimilisfólki og gestum. Elsta dóttir þeirra, Friðrika María (1850-1916) var foreldrum sínum til halds og trausts við heimilishald og móttöku gesta og bústýra föður síns eftir að móðir hennar lést. Hún giftist ekki, en eignaðist tvo syni og sá eldri, Davíð Stefánsson, tók við búskap í Fornahvammi árið 1900 þegar afi hans og nafni fluttist vestur um haf.23Sama heimild.

1900-1920

Ljósmynd úr bókinni Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, bls. 267.

Davíð Stefánsson (1877-1959) bjó í Fornahvammi frá aldamótum og fram til ársins 1920, en fluttist þá að Ásláksstöðum á Vatnsleysu­strönd og bjó þar til æviloka. Móðir hans var bústýra hans í Forna­hvammi þar til hún lést árið 1916. Eftir það var Vilborg Jónsdóttir (1887-1985) í því hlutverki uns þau giftust árið 1919. Faðir Davíðs var Stefán Stefánsson (1851-1885) bóndi á Syðri-Ey og Syðri-Hóli í Vindhælishreppi, A.-Hún. Eins og áður segir keypti Davíð Stefánsson Fornahvamm árið 1909 og átti jörðina allt þar til hann seldi hana ríkissjóði fyrir hönd Vegagerðarinnar árið 1926.

Ríkisjörðin Fornihvammur og ábúendur á henni

Árið 1926 lét Vegagerðin reisa stórt íbúðar- og gistihús í Forna­hvammi sem var stækkað árin 1946-1947. Eftir breytingarnar var gistihúsið í Forna­hvammi talið vera „með einu af fullkomnustu gistihúsum hérlendis. […] Láta mun nærri að 150 manns snæði þar málsverð, þegar áætlunarbifreiðirnar [svo] milli Reykjavíkur og Akureyrar hafa þar viðstöðu.“ Á þessum tíma var Páll Sigurðsson forstöðumaður rekstrarins og sinnti því starfi með myndarbrag.24„Lokið við stækkun á gisihúsinu að Fornahvammi“. Vísir, 4. nóvember 1947, bls. 3.

Fornihvammur árið 1952
Fornihvammur árið 1957.25Upphaflega var hér birt ártalið 1952 og hafði ég það úr Skessuhorni (18. desember 2021, bls. 60). Í athugasemd við færslu Maríu Bjargar Gunnarsdóttur á Facebook 15. nóvember 2022, þar … Lesa meira... Myndin er úr myndasafni Jóns J. Víðis og birt með góðfúslegu leyfi Skessuhorns.

1920-1921 og 1922-1923

Guðjón Jónsson

Guðjón Jónsson.

Guðjón Jónsson (1892-1982) bjó í Forna-hvammi árin 1920-21 og aftur 1922-23. Hann var sonur Jóns Jónssonar, sem tók við búi í Fornahvammi af Einar Gíslasyni, sjá fyrr, og konu hans Ingibjargar Guðlaugsdóttur. Guðjón var fæddur á Hermundarstöðum í Þverárhlíð. Á árum sínum í Fornahvammi var hann ókvæntur, en hafði bústýrur, Þórunni Jóhannesdóttur (1872-1957) fyrra árið og Margréti Magnúsdóttir (1893-1961) seinna árið. Guðjón varð síðar bóndi á Hermundar-stöðum, frá 1927 til 1961. Hann var skáld-mæltur, greindur og vel fróður og eru ljóð eftir hann í Borgfirskum ljóðum. Hann sat í hreppsnefnd í áratugi og einnig í sýslunefnd.26Halldór E. Sigurðsson, „Guðjón Jónsson frá Hermundarstöðum“. Íslendingaþættir Tímans, 10. tbl., miðvikudaginn 10. mars 1982, bls. 6.

1921-1922

Eiríkur Ólafsson

Eiríkur Ólafsson.

Eiríkur Ólafsson (1893-1982) og Kristjana Björnsdóttir (1885-1954) bjuggu í Forna­hvammi um eins árs skeið, fardagaárið 1921-22 og á því ári var Guðjón Jónsson, fyrri ábúandi á staðnum og sá sem tók við af þeim, skráður lausamaður í Fornahvammi í sóknarmannatali Hvammssóknar. Foreldrar Eiríks voru hjónin Ólafur Eiríksson (1856-1921) og Ingibjörg Davíðsdóttir (1856-1918) á Grjóti í Þverárhlíð. Foreldrar Kristjönu voru hjónin Björn Bjarnason (1833-1903) og Þjóðbjörg Jónsdóttir (1845-1910), sem bjuggu á ýmsum bæjum í Flókadal og Reykholtsdal, meðal annars í Brúsholti og á Hrísum. Eiríkur og Kristjana fluttu frá Fornahvammi að Grjóti í Þverárhlíð og bjuggu þar frá 1922 til 1982. Um Eirík segir í afmælisgrein þegar hann stóð á sextugu: „Eiríkur er maður vel látinn og vinnsæll [svo]. Hann er glaðlyndur, traustur í skoðunum, heill í lundarfari, greiðvikinn og fljótu til að rétta þurfandi hjálparhönd. Hann þótti ágætur vinnumaður og alveg sérlega glöggur og góður fjármaður, en slíkir menn hafa löngum verið eftirsóttir.“27Pétur Gunnarsson, „Eiríkur Ólafsson sextugur“. Morgunblaðið, 28. apríl 1953, bls. 11.

1923-1926

Guðmundur Gíslason (1889-1978) bjó í Fornahvammi 1923-1926. Hann var sonur Gísla Sigurðssonar (1850-1895) sem var lengi vinnumaður og húsmaður víða í Norðurárdal, Þverárhlíð og Innri-Akraneshreppi og konu hans Ragnheiðar Rögnvaldsdóttur (1855-1939). Kona Guðmundar var Jónína Soffía Davíðsdóttir (1888-1956) frá Háreksstöðum í Norðurárdal. Foreldrar hennar voru Davíð Davíðsson (1845-1892) og kona hans (skildu) Guðrún Magnúsdóttir (1851-1914). Guðmundur og Jónína bjuggu síðar á Hafþórsstöðum og Svartagili í Norðurárdal og Veiðilæk í Þverárhlíð. Sonur Jónínu með Ásbirni Magnússyni (1871-1943), bónda og húsmanni víða í Innri-Akraneshreppi, var Skeggi (1911-1981) kennari við Laugarnesskóla í Reykjavík og umsjónarmaður barnaefnis í Ríkisútvarpinu.

1926-1946

Jóhann Jónsson

Jóhann Jónsson.

Guðmundur Jóhann Jónsson (1887-1965) og kona hans, Stefanía Katrín Sigurjónsdóttir (1896-1965), bjuggu í Fornahvammi 1926-1946. Foreldrar Jóhanns voru Jón Guðmundsson (1850-1926) og kona hans Sesselja Þorbjörg Jónsdóttir (1861-1917) á Valbjarnar­völlum í Borgarhreppi. Foreldrar Stefaníu voru hjónin Sigurjón Magnús Stefánsson (1871-1960) og Sigríður Magnúsdóttir (1869-1947). Jóhann stundaði einnig póstferðir á vetrum fyrir frænda sinn, Jón Jónsson (1868-1953) bónda og póstmanns í Galtarholti í Borgarhreppi, bæði sem fullmektur og einnig fylgdarmaður.28Jón Guðnason og Ólafur Þ. Kristjánsson, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965 VI. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1976, bls. 281. Jón í Galtarholti var … Lesa meira... Frá­sagnir þeirra frænda af erfiðum vetrar­ferðum um Holta­vörðu­heiði má lesa í Sögu­þáttum land­póst­anna29Þáttur af Jóni í Galtarholti er í II. bindi Söguþátta landpóstanna, bls. 112-130, Helgi Valtýsson tók saman (Reykjavík: Bókaútgáfan Norðri, 1942, endurprentað 1973), og þar er … Lesa meira.... Á tíma Jóhanns var Vegagerðin búin að reisa myndar­legt hús í Forna­hvammi þar sem rými var fyrir allt að 10 nætur­gesti og koma upp aðstöðu fyrir greiðasölu.

1946–1956

Páll Sigurðsson

Páll Sigurðsson.

Páll Sigurðsson (1905-1982) tók næst við búsforráðum í Fornahvammi, þá ókvæntur. Hann var sonur Sigurðar Sigurðssonar (1871-1940) skólastjóra á Hólum í Hjaltadal 1902-20 og konu hans Þóru Sigurðardóttur (1873-1937). Páll hafði áður starfað við plægingar, fyrst með hestum og síðan með dráttarvélum. Hann var einn af fyrstu rútubifreiðarstjórum landsins og ók á leiðinni Reykjavík-Akureyri og var einnig þekktur hestamaður. Páll kom upp góðu fjárbúi í Fornahvammi og hafði talsvert af hestum og tók að sér hestaferðalög. Þegar Páll fór frá Fornahvammi rak hann hótel og greiðasölu í Varmahlíð um skeið. Á þeim árum kvæntist hann Sigurbjörgu Jóhannesdóttur (1939-) frá Merkigili. Hann var um tíma ráðsmaður á Hólum í Hjaltadal, en bjó síðast á Kröggólfsstöðum í Ölfusi.30Hjalti Pálsson, „Páll Sigurðsson á Kröggólfsstöðum“. Morgunblaðið 23. október 1982, bls. 34-35.

1957-1970

Gunnar Níels Guðmundsson

Gunnar Níels Guðmundsson.

Gunnar Níels Guðmundsson (1924-2010) var næsti ábúandi í Fornahvammi á eftir Páli Sigurðssyni. Kona hans var Lilja Guðrún Pálsdóttir (1923-2019). Gunnar var sonur Guðmundar Sæmundssonar (1891-1966) bónda og trésmiðs í Eyði-Sandvík í Sandvíkurhreppi, Árnessýslu. Guðmundur var albróðir Jónínu (1892-1965) myndhöggvara, sem tók upp nafnið Nína Sæmundsson. Móðir Gunnars var Guðbjörg Sveinsdóttir (1889-1937). Lilja Guðrún var dóttir Páls Tómassonar (1887-1963) bónda á Bakka á Skaga og konu hans Maríu Ólafsdóttur (1903-1975). Gunnar hafði áður unnið við járnsmíði hjá Landsmiðjunni og síðar á Bifreiðaverkstæði Sambandsins á Kópavogshálsi. Gunnar og Lilja bjuggu í Reykjavík uns þau fluttu í Fornahvamm. Þar byggðu þau upp jörðina og ráku myndarbúskap. Þau voru mest með um 500 fjár og 100 svín, sem var heldur fáséð á þeim árum. Einnig ráku þau veitingastað og hótel með 13 herbergjum allt frá tveggja manna herberjum upp í sex manna herbergi. Allir áætlunarbílar stoppuðu í Fornahvammi svo og allir flutningabílstjórar. Þá komu rjúpnaveiðimenn á haustin og gistu þar oft. Á síðustu árum Gunnars og Lilju var sett upp skíðalyfta og þá komu börn úr öllum Borgarfirði í Fornahvamm til að renna sér á skíðum. Þegar veru Gunnars og fjölskyldu hans í Fornahvammi lauk ráku þau hjón um tíma veitingastaðinn „Rjúpuna“ í Auðbrekku í Kópavogi og síðar sáu þau um rekstur félagsheimilisins Hlégarðs í Mosfellsbæ.31„Gunnar Níels Guðmundsson. Minning“. Morgunblaðið 21. september 2010, bls. 24. Gunnhildur Lind Hansdóttir, „Með síðustu ábúendum á heiðarbýlinu. Rætt við Maríu Björgu … Lesa meira...

1970-1977

Hafsteinn Ólafsson og Elín Haraldsdóttir
Hafsteinn Ólafsson og Elín Guðmunda Haraldsdóttir.

Þau Hafsteinn Ólafsson (1923-2009) og  Elín Guðmunda Haraldsdóttir (1935-2005) voru síðustu ábúendurnir í Fornahvammi. Hafsteinn var sonur hjónanna Ólafs Kristins Teitssonar (1891-1974) sjómanns í Reykjavík og Vilborgar Magnúsdóttur (1892-1983). Elín var dóttir Haraldar Axels Jóhannessonar (1898-1940) verkamanns í Reykjavík og konu hans Elínar Kristjönu Guðmundsdóttur (1908-1984).  Hafsteinn hafði stundað sjómennsku og bifreiðaakstur áður en hann kom að Fornahvammi. Síðar var hann vitavörður í Garðskagavita.32„Hafsteinn Ólafsson. Minning“, Morgunblaðið 27. apríl 2009, bls. 23.

Óumflýjanleg endalok

Á síðustu búskaparárum Gunnars Guðmundssonar og Lilju Pálsdóttur fór að halla undan fæti í rekstrinum í Fornahvammi. Meginástæðan var sú að ekki fékkst lagt rafmagn að Fornahvammi. Á þeim tíma voru notaðar dísilvélar til lýsingar, en kol og olía til kyndingar. Þetta var býsna dýrt úthald, ekki síst viðhald dísil­vélanna. Gunnar hafði meðal annars samband við Halldór E. Sigurðsson alþingismann og bauðst til að borga helming kostnaðar, á móti ríkinu, við að leggja rafmagn frá Sveinatungu í Fornahvamm, um 7,7 kílómetra leið. Halldór flutti málið á þingi, en það fékkst ekki afgreitt.33Gunnhildur Lind Hansdóttir, „Með síðustu ábúendum á heiðarbýlinu. Rætt við Maríu Björgu Gunnarsdóttur um æskuárin í Fornahvammi“. Skessuhorn, 22. árg., 51. tbl. 18. desember … Lesa meira...

Upphaflega tók Vegagerðin þátt í hitunarkostnaði, en þegar fram leið sá hún ekki lengur ástæðu til að taka þátt starf­rækslu gististaðar þar sem vegurinn yfir Holta­vörðu­heiði var orðinn miklu betri en áður. Árið 1973 var veitt einni milljón króna til rekstrar Fornahvamms, auk 300.000 króna til ábúandans. Til samanburðar nam heildarupphæð til gistingar­styrkja 2.515.000 krónum þetta ár.34 Alþingi. „Greinargerð með tillögu til þingsályktunar“. Þingskjal 163, þings­ályktunar­tillaga, 130. mál, 94. löggjafarþing, 1973. Síðasti ábúandinn, Hafsteinn Ólafsson, stóð í stappi við Vegagerðina vegna minnkandi fjár­fram­laga og vaxandi rekstrar­­erfiðleika. Í viðtali við Morgunblaðið í mars 1976 kvaðst hann „brenna olíu fyrir milli 150—200 þús. krónur á mánuði yfir vetrartímann.“35„Af einkastríði Hafsteins í Fornahvammi við Vegagerðina“. Morgunblaðið 27. mars 1976, bls. 13. Búskap Hafsteins í Forna­hvammi lauk árið eftir og hefur ekki verið búið þar frá þeim tíma. Húsin grotnuðu smám saman niður; fjárhúsin voru rifin en hótelið var talið gjörónýtt og brennt til grunna 5. október 1983.36„Fornihvammur“, Wikiwand. Eftir stendur svínahúsið, sem breytt hefur verið í leitarskála upprekstrarfélags Þverárréttar.

Í Jarðabók Árna og Páls var þess getið að búskapur hafi meðal annars lagst af vegna ágangs ferðafólks yfir Holtavörðuheiði. Óhætt er að fullyrða að aðstoð og greiði við ferðamenn hafi verið snar þáttur í starfi allra ábúenda í Fornahvammi eftir að byggð hófst þar að nýju 1853 og mögulega var það oftast búbót fremur en baggi, því byggð hélst þar óslitið í heila öld og tæpum aldarfjórðungi betur.

Brekkuvellir á Barðaströnd
Brekkuvellir á Barðaströnd. Minnisvarðinn hægra megin á myndinni. Skriðnafellsnúpur að baki. Ljósmynd BJ 2019.

Rétt fyrir neðan veginn sem liggur ofan af Kleifaheiði fram hjá Haukabergi og Brekkuvöllum á Barðaströnd stendur minnisvarði um þrjár konur, Sigríði Einarsdóttur (1880-1941) á Haukabergi, Guðríði Ásgeirsdóttur (1883-1961) á Brekkuvöllum og Lilju Kristófersdóttur (1904-1987) á Brekkuvöllum. Auk nafna kvennanna eru þessi orð letruð á minningarskjöldinn á minnisvarðanum:

Þær mátti kalla afrekskonur fyrir að taka á móti, oft þreyttum, köldum og svöngum ferðamönnum af Kleifaheiði á kreppuárunum sem voru mesta fátæktartímabil 20. aldar.

Með líkum hætti mætti minnast þess fórnfúsa starfs sem ábúendur í Fornahvammi unnu til aðstoðar ferðafólki sem átti leið um Holtavörðuheiði, sem var hið versta veðravíti, einkum á vetrum. Karlmennirnir hjálpuðu þeim sem lentu í kröggum á heiðinni og þegar í Fornahvamm var komið tóku konurnar við, drógu vosklæði af fólki og veittu skjól og góðan beina. Vinnudagurinn var oft langur og stundum bættist nótt við dag. Fyrir öllum var þó séð eftir bestu getu. Án efa hefur tilvist þessa gististaðar og dugnaður og fórnfýsi ábúenda bjargað einhverjum mannslífum í gegnum tíðina. Jón póstur í Galtarholti segir Davíð Stefánsson í Fornahvammi hafa bjargað lífi stúlku sem var hætt komin í Miklagili á Holtavörðuheiði á norðurleið í vitlausu veðri, „ætti hann sannarlega verðlaun skilið fyrir það afrek“.37Helgi Valtýsson, Söguþættir landpóstanna II. Reykjavík: Bókaútgáfan Norðri, 1942, endurprentað 1973, bls. 122-123. Einnig hefur Fornihvammur verið leitarmönnum á svæðinu skjól og svo er enn.

Með stórbættum samgöngum minnkaði og hvarf þörfin á rekstri gistihúss á þessum stað og jörðin stóð ekki lengur undir búrekstri á nútíma vísu þannig að hann gæti framfleytt fjölskyldu. Svo er Fornihvammur óneitanlega ennþá afskekktur staður, þó í alfaraleið sé.

Fáeinar minningar um Fornahvamm

Þeim fækkar nú óðum sem eiga minningar frá Fornahvammi. Lesa má áhugavert viðtal við Maríu Björgu Gunnarsdóttur (Guðmunds­sonar, ábúanda í Fornahvammi 1957-70) í jólablaði Skessuhorns árið 2019, sem vitnað er til hér að ofan. Hún minnist áranna í Forna­hvammi með hlýju og minnist þess að flutninga­bílstjórarnir voru eins og hluti af fjölskyldunni og einn þeirra bauðst meira að segja til að aka gestum úr Reykjavík í fermingar­veislu Maríu Bjargar og bróður hennar.

Jón Tryggvason (1917-2007) í Ártúnum í Blöndudal fór norður með Norðurleiðarrútu sunnan úr Reykjavík, líklega um miðja 20. öld, en þá tók ferðin til Akureyrar tvo daga og var gist á Blönduósi. Hann orti í gamni um ferðahraðann.

Norðurleiðum fer ei fram
með ferðahraðann:
Fimm tímar í Fornahvamm
en fjórir þaðan.38Bragi, óðfræðivefur, https://bragi.arnastofnun.is/visur.php?VID=5378. Sótt 2021.09.18. Ingi Heiðmar Jónsson, „Stökuspjall: Öræfakyrrð og fjallagróður“, Húnahornið, … Lesa meira...

Hörður Ingimarsson frá Sauðárkróki minnst ferðar norður árið 1967 þegar áð var í Fornahvammi vegna þess að Holtvörðuheiðin var kolófær. Þar var fjöldi bíla og því þurfti að hýsa marga, þar á meðal marga flutningabílstjóra. „Nóttin sem fór í hönd var með árshátíðarstemmingu enda blandaður hópur tuga manna og flutningabílarnir höfðu að geyma ómæld veisluföng.“39Hörður Ingimarsson, „Gunnar í Hrútatungu. Minning“. Feykir, 41. árg. 15. tbl., 14. apríl 2021, bls. 19.

Jónas Kristjánsson ritstjóri hefur litið við í Fornahvammi sem heimsmaður og áhugamaður um mat og vín. Hann skrifar þessa minningu um Fornahvamm:

Mest var reykt í sófasettum úti við glugga, þar sem stuðnings­fólk staðarins sat í keng við að borða fram á hné sér. Þar lá líka ljóska endilöng í sófa með kjólinn upp á mið læri og las í bók. Sem betur fer sneri hún höfðinu í gluggann til að fyrir­byggja misskilning vegfarenda. … Staðurinn er bjartur, með parketti í gólfum og borðplötum og rauðri rós og kerti á hverju borði. Veggir eru hvítir með hallæris­myndum, þar á meðal eftir­líkingum úr léttu plasti af gömlum marmara­myndum frá Miðjarðar­hafi. Gamaldags ljósakrónur í loftinu eru í beztu samræmi við matreiðsluna.40„Fornihvammur“. Punktar 05/07/2004, http://www.jonas.is/fornihvammur/. Sótt 2021.09.15.

Eins og Jarðabók Árna og Páls greinir frá var „lítilfjörlig bygð“ í Fornahvammi á 17. öld, þó ekki samfelld. Enginn kann frá að greina hversu lengi býlið var í eyði þar á undan. Hér hefur aðeins verið farið yfir 124 ára tímabil byggðar í Fornahvammi á 19. og 20. öld, eða frá árinu 1853 til og með ársins 1977. Ekki hefur verið búið þar síðan. Eftir því sem heimildir kunna frá að greina er þetta lengsta samfellda tímabil búsetu í Fornahvammi.

Örugglega er hér margt ónefnt, enda aðeins um minnispunkta ferðalangs að ræða.

Athugasemd um myndir

Myndin af Jóhanni Jónssyni er úr Söguþáttum landpóstanna, II. bindi, bls. 125. Myndir af öðrum ábúendum eru myndir sem fylgt hafa minningargreinum um viðkomandi. Að öðru leyti er gerð grein fyrir myndum í myndatextum og meginmáli.

Hafnarfirði 18. september 2021

Benedikt Jónsson

Áhugamaður um land, fólk, bókmenntir og sögu.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Landnáma (Sturlubók), 25. kafli. Hænsa-Þóris saga, 1. og 13. kafli.
2 Ólafur Lárusson, „Kirkjuból“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 46. árg., 1937-1939, bls. 19-56 (53).
3 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1925 og 1927), bls. 300.
4 J. Johnsen, Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða á landinu. Kaupmannahöfn: S. Trier, 1847, bls. 126.
5 Mýra- og Borgarsfjarðarsýslur. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873. Guðrún Ása Grímsdóttir og Björk Ingimundardóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík: Sögufélag og Örnefnastofnun Íslands, 2005, bls. 39-56 (53).
6 Sigurveig Jónsdóttir og Helga Guðrún Johnson, Það er kominn gestur. Saga ferðaþjónustu á Íslandi. Reykjavík, Bókaútgáfan Opna ehf., 2014, bls. 31.
7 Úrskurður óbyggðanefndar. Mál nr. 2/2014. Hluti fyrrum Norðurárdalshrepps. Óbyggðanefnd, 11. október 2016, bls. 106.
8 Sama heimild, bls. 107.
9 Sama heimild, bls. 108.
10 Sama heimild, bls. 110.
11 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV, bls 300.
12 J. Johnsen, Jarðatal á Íslandi, bls. 126.
13 Jón Guðnason, Strandamenn, æviskrár 1703-1953. Reykjavík, 1955, bls. 136.
14 Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 I. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1948, bls. 164.
15 Jósef Jónsson, „Fornihvammur“. Óðinn, 22. árg., 1926, bls. 67-69 (69).
16 Kristleifur Þorsteinsson, „Þáttur af Kjartani Gíslasyni“, Jólablað Tímans, 24. desember 1952, bls. 5.
17 ÞÍ, Kirknasafn. Prestsþjónustubók Staðar í Hrútafirði 1816-1864, bls. 166.
18 Jón Guðnason, Dalamenn, æviskrár 1703-1961 I. (Reykjavík 1961), bls. 292-293. Júníus Kristinsson, Vesturfaraskrá 1870-1914 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Hákóla Íslands, 1983), bls. 206.
19 ÞÍ, Kirknasafn. Sóknarmannatal Hvamms í Norðurárdal 1862.
20 Íslendingabók.
21 Sjá: Kristleifur Þorsteinsson, "Þáttur af Kjartani Gíslasyni", Jólablað Tímans, 24. desember 1952, bls. 4-6.
22 Jósef Jónsson, „Fornihvammur“, Óðinn 22. árg., 1926, bls. 67-69.
23 Sama heimild.
24 „Lokið við stækkun á gisihúsinu að Fornahvammi“. Vísir, 4. nóvember 1947, bls. 3.
25 Upphaflega var hér birt ártalið 1952 og hafði ég það úr Skessuhorni (18. desember 2021, bls. 60). Í athugasemd við færslu Maríu Bjargar Gunnarsdóttur á Facebook 15. nóvember 2022, þar sem hún deildi slóð á þessa grein, birti Jakob Hálfdanarson eftirfarandi athugasemd: „Myndin sem þar er af Fornahvammi og hér er birt, er í myndasafni Jóns J. Víðis, þar sögð tekin 1957, en ekki 1952 eins og Benedikt skrifar, enda er bíllinn til hægri á myndinni 1955 árgerð af Chevrolet Bel Air gerð.“ Ártalinu var breytt til samræmis við ábendingu Jakobs og uppruna myndarinnar haldið til haga.
26 Halldór E. Sigurðsson, „Guðjón Jónsson frá Hermundarstöðum“. Íslendingaþættir Tímans, 10. tbl., miðvikudaginn 10. mars 1982, bls. 6.
27 Pétur Gunnarsson, „Eiríkur Ólafsson sextugur“. Morgunblaðið, 28. apríl 1953, bls. 11.
28 Jón Guðnason og Ólafur Þ. Kristjánsson, Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1965 VI. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1976, bls. 281. Jón í Galtarholti var aðalpóstur á milli Borgarness og Staðar í Hrútafirði 1905-1925.
29 Þáttur af Jóni í Galtarholti er í II. bindi Söguþátta landpóstanna, bls. 112-130, Helgi Valtýsson tók saman (Reykjavík: Bókaútgáfan Norðri, 1942, endurprentað 1973), og þar er sérstaklega fjallað um Jóhann á bls. 124-130. Einnig er fjallað um þá frændur í „Viðauka við þátt Jóns í Galtarholti“ í III. bindi, bls. 167-173.
30 Hjalti Pálsson, „Páll Sigurðsson á Kröggólfsstöðum“. Morgunblaðið 23. október 1982, bls. 34-35.
31 „Gunnar Níels Guðmundsson. Minning“. Morgunblaðið 21. september 2010, bls. 24. Gunnhildur Lind Hansdóttir, „Með síðustu ábúendum á heiðarbýlinu. Rætt við Maríu Björgu Gunnarsdóttur um æskuárin í Fornahvammi“. Skessuhorn, 22. árg., 51. tbl. 18. desember 2019, bls. 60-61.
32 „Hafsteinn Ólafsson. Minning“, Morgunblaðið 27. apríl 2009, bls. 23.
33 Gunnhildur Lind Hansdóttir, „Með síðustu ábúendum á heiðarbýlinu. Rætt við Maríu Björgu Gunnarsdóttur um æskuárin í Fornahvammi“. Skessuhorn, 22. árg., 51. tbl. 18. desember 2019, bls. 60-61.
34 Alþingi. „Greinargerð með tillögu til þingsályktunar“. Þingskjal 163, þings­ályktunar­tillaga, 130. mál, 94. löggjafarþing, 1973.
35 „Af einkastríði Hafsteins í Fornahvammi við Vegagerðina“. Morgunblaðið 27. mars 1976, bls. 13.
36 „Fornihvammur“, Wikiwand.
37 Helgi Valtýsson, Söguþættir landpóstanna II. Reykjavík: Bókaútgáfan Norðri, 1942, endurprentað 1973, bls. 122-123.
38 Bragi, óðfræðivefur, https://bragi.arnastofnun.is/visur.php?VID=5378. Sótt 2021.09.18. Ingi Heiðmar Jónsson, „Stökuspjall: Öræfakyrrð og fjallagróður“, Húnahornið, https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13867. Sótt 2021.09.18.
39 Hörður Ingimarsson, „Gunnar í Hrútatungu. Minning“. Feykir, 41. árg. 15. tbl., 14. apríl 2021, bls. 19.
40 „Fornihvammur“. Punktar 05/07/2004, http://www.jonas.is/fornihvammur/. Sótt 2021.09.15.

Next Post

Previous Post

© 2023 Staður og stund

Theme by Anders Norén