Staður og stund

Minnispunktar ferðalangs

Ólafur í Titlingi

Myndina hér að ofan tók greinarhöfundur af Hlíðarenda í Kræklingahlíð sumarið 2005.

Saga og tvær vísur

Fyrir margt löngu heyrði ég skemmtilega sögu af bónda nokkrum er Ólafur hét og bjó á bæ þeim er Titlingur nefndist í Kræklingahlíð í Eyjafirði rétt fyrir miðja 20. öld. Hann var af sveitungum sínum ævinlega kenndur við bæ sinn og kallaður Ólafur í Titlingi. Líkaði honum það miður vel og lét breyta nafni bæjarins í Hlíðarenda. Til að mönnum festist hið nýja nafn í minni fékk hann kunnan hagyrðing á Akureyri til að yrkja fyrir sig vísu um sig og nýja bæjarnafnið. Hagyrðingurinn orti þessa vísu, sem hafði ef til vill ekki alveg tilætluð áhrif.

Lögmannshlíðar vífum vænum
verður margt að bitlingi
þegar ekur upp úr bænum
Ólafur á … Hlíðarenda.

Þegar Ólafur hafði seinna selt umrædda jörð bætti hagyrðingurinn þessari vísu við.

Margar hafa meyjar grátið
mun svo verða enn um sinn
því Ólafur hefur eftirlátið
öðrum manni … Hlíðarenda.

Í leit að höfundi

Saltstaukur
Reðurformaður saltstaukur hannaður og tegldur af Sigurði Hjartarsyni. Eigandi og ljósmyndari er greinarhöfundur.

Skömmu eftir að ég heyrði söguna heimsótti ég góðvin minn Sigurð Hjartarson sagn­fræð­ing, kennara, skólastjóra og stofn­anda Hins íslenzka reðasafns (Icelandic Phallo­logical Museum), en hann bjó þá í Grindavík. Sigurður var nýkomin frá Akureyri og hafði þar meðal annars heimsótt sýslumannn og fengið ljósrit úr veðmálabók sem sýndi glögglega að árið 1945 var þinglýst kaup­samn­ingi, dag­settum 10.08.1944, á nafn Hjartar Gísla­sonar fyrir spildu úr landi Hlíðar­enda og var kaupverðið 100 kr. fyrir ca. 1 hektara. Eigandi Hlíðarenda á þessum tíma var Stefán Steinþórsson (1895-1978), sjá síðar. Erindi Sigurðar til sýslu­manns var einmitt að grafast fyrir um upphaf eignar­halds föður síns á spild­unni úr landi Hlíðar­enda.

Sigurður hefur oft dvalið í skógar­lundi á spild­unni góðu og tálgað margan fagran titt­ling­inn úr efnivið fengnum úr birki­skógi sem þar vex. Suma þeirra má sjá á reðasafninu ásamt öðrum skyldum gripum tegldum úr efni frá sama stað. Það er svo með skemmti­legri lit­brigð­um lífsins að gripir á því góða safni eigi upp­runa sinni í landi Titlings, smíðaðir af sjálfum stofn­anda safnsins og forstöðu­manni um árabil, sem á sínum yngri árum tók þátt í upp­græðslu spild­unnar sem keypt var í títt­nefndu landi á sjálfu lýðveldis­árinu. Er þetta ekki fallegt dæmi um hringrásar­hagkerfi listarinnar?

Það vakti athygli mína að efst á síðunni úr veðmálabókinni var ritað bæjarheitið „Hlíðarendi (áður Titlingur)“. Þegar ég leit yfir síðuna sá ég ýmsar færslur sem virtust styðja eitt og annað sem fram kemur í sögunni um Ólaf í Titlingi. Ég sagði Sigurði söguna og fór með vísurnar. Af því að ég vissi að Sigurður er fæddur og uppalinn á Akureyri spurði ég hann hvort hann þekkti vísurnar og gæti kannski upplýst mig um höfund þeirra. Hann kannaðist við söguna og vísurnar, en þekkti ekki höfund þeirra. Seinna, þegar við rifjuðum þetta upp, sagði hann mér að frændi hans, Pétur Pétursson læknir á Akureyri, hafi talið líklegt að Hjörtur Gíslason, faðir Sigurðar, gæti verið höfundur vísnanna. Þessi tilgáta þótti mér bæði skemmtileg og vel sennileg. Hjörtur var kunnur hagyrðingur og rithöfundur og skrifaði m.a. barna­bækurnar Salómon svarti og Salómon svarti og Bjartur, sem ég las í æsku mér til skemmtunar. Hann gat því alveg komið til greina sem höfundur vísnanna.

Eftir þetta nefndi ég þetta öðru hvoru við mann og annan og varpaði fyrirspurn um málið inn á vísnapóstlistann Leir. Ég fékk ýmsar tilgátur um höfund, eins og Rósberg G. Snædal, Kristján frá Djúpalæk og Örn Snorrason kennara, sem allir voru kunnir hagyrðingar á Akureyri á þessum tíma.

En núna virðist alnetið vera búið að leysa þessa gátu fyrir mig og aðra — að hluta til.

Í lesendahorni Dags á Akureyri 19. september 1983 birtist svar Steingríms Eggertssonar (1901-1993) við athugasemd Sigtryggs Símonarsonar (1915-1997), fyrrum eiganda Hlíðarenda í Kræklinga­hlíð, sem einnig birtist í Degi 22. ágúst 19831Dagur 22. ágúst 1983, bls. 4.. Í athuga­semd sinni eignaði Sigtryggur fyrri vísuna Friðjóni Axfjörð2Friðjón Sigfússon Axfjörð, f. 20. sept. 1903, d. 14. jan. 1953. byggingarmeistara á Akureyri. Þetta segir Steingrímur Eggertsson vera alrangt og birtir eftirfarandi frásögn því til sönnunar:

Það var um sama leyti og Ólafur [Thorarensen] var að huga að koti sínu [Hlíðarenda], að enski herinn var að láta byggja bragga og leggja vegi í hlíðarhorninu og hafði hópa af verkamönnum frá Akureyri í vinnu. Faðir minn, Eggert Grímsson var í einum þessara hópa, og þar var einnig Örn Snorrason túlkur og verkstjóri. Eitt kvöldið kom pabbi heim með vísu skrifaða á blað, sem hann sagði að Örn Snorrason hefði kveðið þá um daginn þegar þeir sáu Ólaf á ferðinni að Hlíðarenda, og er vísan svona:

Lögmannhlíðar vífum vænum,
verður margt að bitlingi.
Ók hér fríður upp að bænum,
Ólafur í Tittlingi.

Nú hef ég hringt í Örn Snorrason kennara sem býr að Ljósheimum 22 í Reykjavík og spurt hann hvort ég fari hér með rétt mál, og segir hann svo vera. Friðjón Axfjörð hef ég ekki ennþá getað náð í vegna þess að hann er látinn fyrir nokkrum árum.3Dagur 19. september 1983, bls. 2.

Ég held að treysta megi því að Örn Snorrason hafi þekkt vísu sína og geng því út frá því að frásögn Steingríms Eggertssonar sé rétt. Vísan, í örlítið breyttri mynd, er birt í Vísnasafni Skagfirðinga og er þar einnig eignuð Erni Snorrasyni. Um tildrög hennar er þar ritað eftirfarandi: „Um Ólaf bankastjóra er átti jörðina Tittling“. Þess er ennfremur getið að hún sé úr Vísnasafni Sigurðar J. Gíslasonar, sem lengi bjó á Akureyri.4Sigurður Jóhann Gíslason fæddist á Skarðsá í Sæmundarhlíð í Skagafirði 6. júlí 1893. Hann lést 28. mars 1983. Foreldrar hans voru Gísli Konráðsson (1865-1932) bóndi á Skarðsá … Lesa meira...

Enn er óleyst gátan um höfund seinni vísunnar. Kannski orti Örn hana líka; kannski einhver annar snjall hagyrðingur. En þær passa algjörlega saman að efni og stíl.

Örn Snorrason kennari
Örn Snorrason.

Höfundurinn, Örn Snorrason, kennari og rithöfundur, fæddist á Dalvík 31. janúar 1912 og lést í Reykjavík 1. október 1985. Foreldrar hans voru Snorri Sigfússon (1884-1978), skólastjóri á Flateyri, og síðar námsstjóri Norðurlands með búsetu á Akureyri og k.h. Guðrún Jóhannesdóttir (1885-1947). Snorri var sonur Sigfúsar Jónssonar (1837-1894), bónda á Brekku og Grund í Svarfaðardal og k.h. Önnu Sigríðar Björnsdóttur (1848-1897). Guðrún var dóttir Jóhannesar Jónssonar Reykjalín (1840-1915), bónda á Þönglabakka og Kussungsstöðum í Þorgeirsfirði, og k.h. Guðrúnar Sigríðar Hallgrímsdóttur (1849-1924).

Örn var lengi kennari á Akureyri, við Barnaskólann 1937 til 1960 og við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1960-66. Síðan kenndi hann við Barnaskólann á Hellu á Rangárvöllum í eitt ár og loks við Álfta­mýrar­skóla í Reykjavík 1967-70. Þá var hann prófarkalesari á Vísi og síðar á DV árin 1970-1984. „Hann kenndi einnig við MA og var prófdómari þar um árbil. Örn orti töluvert á sínum yngri árum, oft hnyttin tækifæriskvæði, en sum kvæða hans eru enn sungin í Menntaskólanum á Akureyri. Hann notaði þá oftast dulnefnið Aquila sem merkir örn á latínu.“5Morgunblaðið, „Merkir Íslendingar. Örn Snorrason“, 31. janúar 2014, bls. 43.

Útgáfur vísnanna

Eins og þegar er komið fram eru til fleiri en ein útgáfa af fyrri vísunni og er það nær eingöngu þriðja vísuorðið sem er á reiki. Fyrir utan „Ók hér fríður upp að bænum“ er sums staðar ritað „þegar ekur út úr bænum“ og annars staðar „þegar ekur upp úr bænum“, sem mér finnst persónulega réttara miðað við staðsetn­ingu margumræddrar jarðar, sem er fyrir ofan Akureyri. Í einni útgáfu vísunnar er fyrsta vísuorðið svona: „Eyjafjarðarvífum vænum“. Mér sýnist að sú útgáfa sem fylgir sögunni sem sögð var hér í byrjun pistilsins sé algengust, en hún er ekki eins og Steingrímur Eggertsson hefur eftir föður sínum. Engin leið er að skera úr um hvernig vísan var upprunalega, nema til sé handrit Arnar Snorrasonar eða að miði Eggerts Grímssonar finnist einhvers staðar.

Seinni vísan er nánast eins í öllum heimildum sem ég hef séð, ef horft er framhjá smávægilegum mismun í greinarmerkjasetningu.

Hver var Ólafur?

Ólafur Thorarensen
Ólafur Thorarensen.

Þar er varla spurning um að Ólafur sá sem ort er um var Ólafur Thorarensen útibússtjóri Landsbankans á Akureyri 1931-1961. Ólafur fæddist á Akureyri 8. desember 1892 og lést í Reykjavík 30. janúar 1966. Foreldrar hans voru hjónin Þórður Thorarensen (1859-1944) gullsmiður á Akureyri og Anna Jóhannsdóttir (1869-1946). Ólafur mun ekki hafa stundað skólagöngu í æsku umfram barnaskólanám, en bætti það upp með sjálfsnámi. Hann lærði m.a. gullsmíði og leturgröft hjá föður sínum þó hann lyki ekki sveinsprófi í þeim greinum.

Ólafur hóf snemma störf hjá Landsbanka Íslands, fyrst sem aðstoðarmaður en vann sig furðu fljótt upp í stöðu féhirðis. Árið 1919 flutti Ólafur til Reykjavíkur og starfaði þar lengst af sem fulltrúi í aðal bókhaldsdeild Landsbankans. Hann gegndi einnig starfi bankastjóra í forföllum aðalbankastjórans. Árið 1931 fluttist Ólafur aftur til Akureyrar með fjölskyldu sinni og tók við forstöðu útibús Landsbankans á Akureyri.6Jón G. Sólness, „Ólafur Thorarensen fyrrverandi bankastjóri – Minning“. Morgunblaðið 5. febrúar 1966, bls. 20.

Kona Ólafs var Jóhanna María Frímannsdóttir (1897-1978) og áttu þau tvö börn sem upp komust, Þórð Frímann og Sigríði. Foreldrar Jóhönnu Maríu voru Jakob Frímann Jakobsson (1868-1937) og kona hans Sigríður Björnsdóttir (1875-1963), langafi og -amma Jakobs Frímanns Magnússonar tónlistarmanns og nýkjörins þingmanns.

Valdimar og Ólafur Thorarensen eru skyldir að þremur fjórðu. Sameiginlegur forfaðir þeirra er Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hér að neðan má sjá skyldleika þeirra myndrænt.

Skyldleiki Valdimars og Ólafs
Skyldleiki Valdimars og Ólafs Thorarensen.

Hvað með Titlinginn?

Í Kræklingahlíð í Eyjafjarðarsýslu hefur verið bær sem heitir Titlingur að minnsta kosti frá upphafi 18. aldar og er hans getið með því nafni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín7Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1925 og 1927, bls. 198. og öllum manntölum frá og með 1703 til 19108Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands, www.manntal.is.. Í flestum manntöl­un­um er bæjarnafnið ritað með einu „t“ en í mann­talinu 1901 er nafnið ritað Tyllingur. Í mann­talinu 1920 kemur þetta bæjar­heiti ekki fyrir, en þar er komið bæjarnafnið Hlíðarendi, sem rímar við nafna­breytingu sem gerð var árið áður og nánar er fjallað um hér á eftir.

Hlíðarendi - Lögmannshlíð
Hlíðarendi aðeins vinstra megin við miðja mynd. Kirkjan í Lögmannshlíð sést til hægri. Þoka í Kræklingahlíð byrgir fjallasýn. Ljósmynd: Benedikt Jónsson, 2005.

Í sóknarmannatölum er fyrst farið að rita heiti jarðarinnar Tyll­ingur árið 1892 og svo aftur árið 1897 og eftir það helst sú mynd heitisins allt þar til breytt var um nafn á jörðinni í Hlíðarendi, með þeirri undantekningu að árið 1900 er ritað Titlingur í sóknar­mannatali. Á árunum 1885-1890 er jörðin nefnd Þúfnavellir í sóknar­mannatölum.9ÞÍ. Kirknasafn. Sóknarmannatöl Glæsibæjar 1853-1895, Sóknarmannatöl Hrafnagils 1853-1930.

Þrátt fyrir að umrætt bæjarnafn hafi langoftast verið ritað Tyllingur í sóknarmannatölum á 20. öld fram að nafnabreytingu og Hlíðar­endi eftir það, virðist samt heitið Titlingur hafa lifað góðu lífi áfram, t.d. í öðrum opinberum gögnum. Í bæjatali póst­stjórnar­innar frá 1930 er heiti bæjarins ritað þannig í lista yfir bæi í Glæsibæjar­hreppi: „Titlingur (Hlíðarendi)“.10Bæjatal á Íslandi 1930, útgefið af Póststjórninni. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1930, bls. 51. Það vekur auðvitað athygli að hið eldra nafn, Titlingur, er aðalnafn í þessu opinbera riti, þó nafni bæjarins hafi verið breytt í Hlíðarenda ellefu árum fyrr. Í frásögn Steingríms Eggertssonar hér að ofan er notað nafnið Tittlingur. Augjóslega er það nafnið sem vísnahöfundur hefur haft í huga því annars gengur rímið ekki upp.

Niðurstaðan er því sú að bæjarnafnið var sannanlega til, en hefur tekið breytingum í tímans rás.

Ábúð og eignarhald

Samkvæmt þinglýsingarbók Eyjafjarðarsýslu var afsali jarðarinnar Titlingur, dagsettu 6. júní 1918, þinglýst á nafn Valdimars Thorarensen11Valdimar Thorarensen (1867-1921) málaflutningsmaður á Akureyri frá 1897, sonur Jakobs Thorarensen (1830-1911) kaupmanns í Reykjarfirði og konu hans Guðrúnar Óladóttur Viborg (1833-1891). … Lesa meira... sama ár. Réttu ári seinna (6. júní 1919) er þinglýst leyfisbréfi (dags 8. des 1918) „til að láta jörðina heita Hlíðarenda“ (sjá mynd).

Síða úr veðmálabók
Afrit úr veðbók, þ. e. eignaskráningu, Sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
Ég þakka Elínu Sigurlaugu Árnadóttur fyrir þá greiðvikni að útvega mér þessa mynd.

Næstu þinglýsingar um eigendaskipti eru sem hér segir:

ÁrDagsetning skjalsNýr eigandi
192401.06.1923Pétur Tómasson
192724.05.1927Sigfús E. Axfjörð
194022.04.1940Ólafur Thorarensen
194225.11.1941Stefán Steinþórsson
194622.05.1945Gunnar S. Hafdal
194823.05.1947Björn Eiríksson
195101.06.1951Baldur Halldórsson

Þarna kemur fram að Ólafur Thorarensen kaupir jörðina á stríðs­árunum, sem rímar vel við frásögn Steingríms Eggertssonar hér að ofan.

Ábúendur í Titlingi á 20. öld fyrir nafnabreytinguna 1919 voru:

TímabilÁbúandi
1893-1905Þorvaldur Árnason (1853-1914)
1905-1919Jósef Ísleifsson (1876-1965)

Eftir nafnabreytinguna og til 1940:

TímabilÁbúandi
1919-1925Pétur Tómasson (1886-1961)
1925-1926Sigurður Jóhannesson (1888-1957)
1926-1927Kristján S. Sigurðsson (1875-1955)
1927-1940Sigfús Axfjörð (1866-1942)

Af þeim eigendum og ábúendum sem hér eru taldir er aðeins einn sem ber nafnið Ólafur og það er Ólafur Thorarensen, enda er hann víða nefndur í tengslum við fyrri vísuna. Það er því engum vafa undirorpið að hann er sá Ólafur sem ort er um.

Í dag er á Hlíðarenda rekið fyrirtækið Baldur Halldórsson ehf, stofnað 06.05.2007, sem er „eitt af stærstu fyrirtækjum í Evrópu sem framleiðir og selur vörur og vélbúnað fyrir minni fiskiskip“, eins og segir á vef fyrirtækisins. Þar segir ennfremur: „Baldur Halldórsson hóf smíði trillubáta á Hlíðarenda við Akureyri árið 1953, eftir að hafa lokið meistaraprófi í skipasmíðum.“ Eigendur fyrirtækisins eru Sigurður Hólmgeir Baldursson og Ingunn Kristín Baldursdóttir, sem jafnframt er stjórnarformaður þess. Þau eru börn áðurnefnds Baldurs Halldórssonar sem keypti Hlíðarenda árið 1951, réttum mánuði áður en greinarhöfundur leit fyrst dagsins ljós.

Niðurstaða

Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að sagan styðst talsvert, en ekki að öllu leyti, við þekktar staðreyndir. Bærinn hét lengst af Titlingur og staðsetning hans passar við efni vísnanna. Heiti bæjarins var sannanlega breytt í Hlíðarenda. Um tíma var bærinn í eigu manns sem bar nafnið Ólafur. En engar heimildir hef ég séð um að sá maður, Ólafur Thorarensen, hafi fengið hagyrðing til að yrkja fyrir sig vísur um sig og bæjarnafnið og þegar hann eignaðist jörðina var liðið 21 ár frá nafnbreytingunni. Af meintum hags­mun­um meyjanna sem nefndar eru í vísunum fara engar sögur sem mér eru kunnugar.

Í vísu Arnar Snorrasonar, eins og Steingrímur Eggertsson tilfærir hana, er aðeins nefnt hið eldra bæjarnafn, en ekki yngra nafnið, Hlíðarendi.Sú vísa gefur því til kynna að Ólafur hafi verið kenndur við hið gamla bæjarnafn, Titling, að minnsta kosti af gárungum og sýnir það langlífi hins upphaflega bæjarnafns. Engar heimildir hef ég fundið um höfund síðari vísunnar, þannig að enn eru ekki öll kurl komin til grafar.


Sagt er að góð saga eigi ekki að gjalda sannleikans. Þannig er sagan sem sögð var hér í upphafi bráðskemmtileg sem slík. Önnur skemmtun felst í því að skyggnast aðeins á bakvið söguna og freista þess að sjá hvort einhver tengsl við raunveruleikann séu til staðar og hver þau eru. Í þessum minnispunkti hef ég leyft mér að gera hvort tveggja.

Fyrsta útgáfa þessa pistils var rituð 9. ágúst 1993 og var hún endurskoðuð 27. júlí 2007. Hér birtist pistillinn verulega aukinn og endurbættur.

Hafnarfirði 5. nóvember 2021

Benedikt Jónsson

Áhugamaður um land, fólk, bókmenntir og sögu.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Dagur 22. ágúst 1983, bls. 4.
2 Friðjón Sigfússon Axfjörð, f. 20. sept. 1903, d. 14. jan. 1953.
3 Dagur 19. september 1983, bls. 2.
4 Sigurður Jóhann Gíslason fæddist á Skarðsá í Sæmundarhlíð í Skagafirði 6. júlí 1893. Hann lést 28. mars 1983. Foreldrar hans voru Gísli Konráðsson (1865-1932) bóndi á Skarðsá og Guðbjörg Guðmundsdóttir (1867-1952) húsfreyja á Brekkukoti í Óslandshlíð. Sigurður Jóhann var kennari, skíðamaður og vísnasafnari og vann að ýmsum störfum, síðast á Akureyri.
5 Morgunblaðið, „Merkir Íslendingar. Örn Snorrason“, 31. janúar 2014, bls. 43.
6 Jón G. Sólness, „Ólafur Thorarensen fyrrverandi bankastjóri – Minning“. Morgunblaðið 5. febrúar 1966, bls. 20.
7 Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns IV. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag, 1925 og 1927, bls. 198.
8 Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands, www.manntal.is.
9 ÞÍ. Kirknasafn. Sóknarmannatöl Glæsibæjar 1853-1895, Sóknarmannatöl Hrafnagils 1853-1930.
10 Bæjatal á Íslandi 1930, útgefið af Póststjórninni. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1930, bls. 51.
11 Valdimar Thorarensen (1867-1921) málaflutningsmaður á Akureyri frá 1897, sonur Jakobs Thorarensen (1830-1911) kaupmanns í Reykjarfirði og konu hans Guðrúnar Óladóttur Viborg (1833-1891). Valdimar andaðist í Kaupmannahöfn, en þangað hafði hann farið til að leita sér lækninga. Sjá: Páll Eggert Ólafsson, Íslenzar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 V. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1952, bls. 38.

Next Post

Previous Post

© 2023 Staður og stund

Theme by Anders Norén