Staður og stund

Minnispunktar ferðalangs

Tóta litla tindilfætt

Textinn um hana Tótu litlu tindilfættu er úr revíunni „Haustrigningar“ sem sýnd var í Iðnó í Reykjavík árið 1925. Tvennum sögum fer af höfundum textans. Sumir vilja kenna hann við Pál Skúlason (1894-1973) ritstjóra Spegilsins1Spegillinn var íslenskt háðsádeilutímarit sem kom út með nokkrum hléum frá 1926 til 1983, lengst af mánaðarlega., en aðrir nefna sem höfund Gústav Adolf Jónasson (1896-1961) sem var settur lögreglu­stjóri um tíma og síðast ráðuneytistjóri í dómsmálaráðuneytinu. Páll Skúlason samdi revíuna „Boltinn með lausa naflann“ fyrir Tennisfélag Reykjavíkur árið 1922. Hún gekk það vel að Páll stofnaði fyrirtækið Reykjavíkurannál sem setti upp einar sex revíur næstu árin og ein af þeim var „Haustringningar“. Ýmsir höfundar störfuðu með Páli og einn þeirra var Gústav Adolf Jónasson.2Leikminjasafn Íslands, https://leikminjasafn.is/news/49/7/1922/d,News_events. Skoðað: 2022.02.22.

Gústav Adolf Jónasson
Gústav Adolf Jónasson.
Ljósmynd: Timarit.is/Mbl 12. ágúst 1956, bls. 7.
Emil Reesen
Emil-Reesen. Ljósmynd: Det Danske Filminstitut.

Textinn um Tótu litlu var sunginn við lag danska lagasmiðsins Emil Reesen (1887-1964), Lille Lise Let-paa-Taa. Danska textann við lag Reesen sömdu þeir Carl Arctander, Ludvig Brandstrup og Alfred Kjærulf. Solveig Oderwald-Lander söng hann i Regnbuen í Scala Teater í Kaupmannahöfn árið 1924. Hér má heyra Solveigu flytja lagið með upphaflega textanum.

Haukur Morthens söng lagið um Tótu litlu, ásamt laginu „Hlíðin mín fríða“, inn á 45 snúninga hljómplötu sem gefin var út af Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur árið 1963 (HSH45-1017).

Textinn um Tótu litlu er auðvitað gamankvæði sem vísar til fólks og fyrirbæra sem alþekkt voru í íslensku þjóðfélagi í upphafi þriðja áratugs tuttugustu aldar. Þar sem hartnær öld er liðin síðan, er ekki úr vegi að skýra nokkur atriði í textanum sem helst geta vafist fyrir nútímafólki. Hér er gerð tilraun til þess.

Tóta litla tindilfætt

Hún var hýr og rjóð,
hafði lagleg hljóð,
sveif með söng um bæinn,
sumarlangan daginn.
Hún var hér og þar,
á hoppi alls staðar,
en saumaskap og lestri,
sinnti’ hún ekki par.

Tóta litla tindilfætt,
tók þann arf úr föðurætt
að vilja lífsins njóta,
veslings litla Tóta.
Ýmsum gaf hún undir fót3Stíga í vænginn við einhvern, reyna við einhvern.,
umvandanir dugðu’ ei hót.
„Aðrar eru ekki betri’ ef að er gætt,“
svaraði hún Tóta litla tindilfætt4Létt á fæti..

Mamma Tótu var,
mesta ógnarskar5Skar = einhver sem er veiklulegur, hrumur.
með andlit allt í hrukkum,
og hún gekk á krukkum6Úr dönsku, krykke = hækja. Halldór Laxness nefndi þessa þýðingu í bráðskemmtilegri grein í Þjóðviljanum 16. apríl 1978, bls. 7..
Eitt sinn upp hún stóð,
æpti: „Dóttir góð,
sæktu mér að lesa, sögur eða ljóð.“

Tóta litla tölti’ af stað,
til að kaupa Morgunblað.
„Seint ert þú á labbi,“
segir Fjólupabbi7„Sú var tíðin að Morgunblaðið var allra blaða frægast fyrir málleysur og ambögur. Voru bögumæli þessi kölluð fjólur og ritstjóri þess Fjólupabbi.“ Úlfljótur, “Tíminn … Lesa meira....
„Ekkert varðar þig um það,
ég þarf að fá eitt Morgunblað.
Maður getur alltaf á sig blómum bætt,“
svaraði hún Tóta litla tindilfætt.

Gamla konan beið,
gerðist býsna reið.
Er Tóta gekk í hlaðið,
hún hrifsaði Morgunblaðið.
„Að bjóða bókaorm,
blað með svona form.
Ég heimta’ að fá að lesa, Harðjaxl8Harðjaxl réttlætis og laga var tímarit sem kom út í Reykjavík á árunum 1924-1927. eða Storm9Stormur var tímarit sem kom út í Reykjavík á árunum 1924-1950..“

Tóta litla tölti’ af stað,
til að kaupa annað blað.
Lengi mátti’ hún ganga,
að leita’ að Oddi10Oddur Sigurgeirsson (1879-1953) sterki af Skaganum, ritstjóri og eigandi tímaritsins Harðjaxl réttlætis og laga. og Manga11Magnús Magnússon (1892-1978) lögfræðingur, bókavörður og ritstjóri tímaritsins Stormur..
Farnir voru fuglar þeir,
til fundarhalda’ báðir tveir.
blaðakóngar hafa löngum lýðinn frætt,
og að þeim leitar Tóta litla tindilfætt.

Það er athyglisvert að í danska textanum er fjallað um afa Lísu litlu, en í íslenskri gerð textans kemur til sögu mamma Tótu. Í bráðskemmtilegri grein Halldórs Laxness, sem vísað er til hér í neðanmálsgrein, er birt þetta brot úr títtnefndu Tótukvæði:

Amma Tótu var
allra mesta skar
með andlit alt í hrukkum
og hún gekk á krukkum.

Hér er getið um ömmu Tótu, en ekki mömmu eins og finna má í öllum gerðum textans sem ég hef séð á alnetinu. Þar sem ég hef ekki frumtextann við hendina, get ég ekki skorið úr um hvað er rétt í þessu efni, en rétt er að minna á að amma Tótu getur tæpast æpt „Dóttir góð…“.


Hér að neðan er svo danski textinn um Lille Lise Let-paa-taa.

Lille Lise Let-paa-Taa

Dengang hun som barn,
hun med bedstefar’n
måtte sindigt trave
i den gamle have.
Over havens hegn
kigged’ hun forleg’n
på de store drenge udenfor på vej’n.

Refrain:

Lille Lise let på tå,
så misund’lig dansen gå
udenfor på pladsen,
rundt om lirekassen.
Det er klart at svært man har
ved at nøj’s med bedstefar,
når man har de fine nye laksko på
og man er en lille Lise-Let-på-tå.

Ak, men såd’n rar
gammel Bedstefar
kan ej evigt trave
i den samme Have.
Og den lille Tøs,
som blev sluppet løs,
er for gadens drenge ikke mer’ nervøs.

Refrain:

Lille Lise let på tå,
danser nu på må og få
med alverdens drenge –
ømt og hedt og længe.
Og den fine kjole – tænk –
den har få’t et enkelt stænk, –
et par pletter hist og her, kan let man få
når man er en lille Lise-Let-på-tå.

Hvis De hulker kvalt –
trøst Dem så – thi galt
går det ikke Lise
her i denne vise.
Nej – fra favn til favn
uden sorg og savn
vil hun danse ind i ægteskabets havn.

Refrain:

Lille Lise let på tå,
danser jo så godt som få.
Dans er tidens løsen, –
altså giftes tøsen –
og så snart en mand hun får
bytter hun ham næste år,
der er altid mandfolk nok at træde på,
når man er en lille Lise-Let-på-tå.

Carl Arctander, Ludvig Brandstrup og Alfred Kjærulf.

Benedikt Jónsson

Áhugamaður um land, fólk, bókmenntir og sögu.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 Spegillinn var íslenskt háðsádeilutímarit sem kom út með nokkrum hléum frá 1926 til 1983, lengst af mánaðarlega.
2 Leikminjasafn Íslands, https://leikminjasafn.is/news/49/7/1922/d,News_events. Skoðað: 2022.02.22.
3 Stíga í vænginn við einhvern, reyna við einhvern.
4 Létt á fæti.
5 Skar = einhver sem er veiklulegur, hrumur.
6 Úr dönsku, krykke = hækja. Halldór Laxness nefndi þessa þýðingu í bráðskemmtilegri grein í Þjóðviljanum 16. apríl 1978, bls. 7.
7 „Sú var tíðin að Morgunblaðið var allra blaða frægast fyrir málleysur og ambögur. Voru bögumæli þessi kölluð fjólur og ritstjóri þess Fjólupabbi.“ Úlfljótur, “Tíminn keppir við Moggann í fjólnaræktun”. Frjáls þjóð 19. maí 1956, bls. 9. „Þegar kaupmenn af dönskum ættum urðu meðal eigenda Morgunblaðsins snemma á þriðja áratug síðustu aldar var farið að uppnefna blaðið „danska Mogga“. Keppinautar á blaðamarkaði og pólitískir andstæðingar hófu lúsarleit að dönskuslettum í blaðinu og gerðu sér mikinn mat úr ef eitthvað fannst. Einkum bar á þessu í Alþýðublaðinu og Tímanum. Jónas frá Hriflu var þá aðalpenni Tímans. Var honum mjög í nöp við Valtý Stefánsson, ritstjóra Morgunblaðsins. Fann Jónas upp á því að kalla villur sem fundust í Morgunblaðinu „Valtýsfjólur“, safnaði þeim saman og gerði gys að ritstjóranum. Er upp úr því sprottið heitið „Fjólupabbi“ um Valtý.” mbl.is/greinasafn/grein/1485717/.
8 Harðjaxl réttlætis og laga var tímarit sem kom út í Reykjavík á árunum 1924-1927.
9 Stormur var tímarit sem kom út í Reykjavík á árunum 1924-1950.
10 Oddur Sigurgeirsson (1879-1953) sterki af Skaganum, ritstjóri og eigandi tímaritsins Harðjaxl réttlætis og laga.
11 Magnús Magnússon (1892-1978) lögfræðingur, bókavörður og ritstjóri tímaritsins Stormur.

Next Post

© 2023 Staður og stund

Theme by Anders Norén