Flest skosk maltviskí eru látin þroskast í tunnum sem höfðu áður geymt rúg- eða maísviskí (bourbon) í nokkur ár og bættu því vanillu, karamellu og léttu hnetubragði í skoska viskíð. Nomad viskíð er alið upp á nokkuð annan máta og telst því hvorki skoskt, né spænskt, þó að bæði löndin hafi komið að framleiðslu þess.
Eitt þekktasta viskiframleiðslusvæði Skotlands er Speyside, sem liggur austur af Inverness. Þar eru framleidd heimsþekkt maltviskí eins og Glenlivet, Glenfiddich, Balvenie og Macallan.
Spænski vínframleiðandinn González Byass hefur unnið með framleiðendum maltviskís á Speyside svæðinu í meira en 100 ár og hin síðari ár einkum með Nebba, Ríkarði Péturssyni (Richard “The Nose” Paterson), sem er helsti blöndunarmeistari í Speyside. Árum saman skaffaði González hinum skosku viðskiptafélögum sínum tunnur undan búrbón til að þroska í maltviskíið.
Ríkarður Nebbi fór árlega til Jerez de la Frontera á Spáni til skrafs og ráðgerða, einkum til að skoða tunnur og ráðgast við kollega sinn, Antonio Flores, blöndunarmeistara González Byass. í einni slíkri ferð fóru þeir félagarnir að ræða möguleikana á að þroska maltviskí í sérrý tunnum.
Þegar kemur að því stigi maltviskíframleiðslu að þroska vínið í tunnum, er hin hefðbundna aðferð sú að búrbón tunnur eru slegnar í sundur, t.d. á Spáni, og þær fluttar til Skotlands. Þar eru þær settar saman aftur og maltviskíi hellt í þær til geymslu í 10 til 21 ár, allt eftir kenjum framleiðenda. Þegar sérrý tunnur eru notaðar til að þroska maltviskí er viskínu hellt í þær blautar af sérrýi. Þessi aðferð krefst þess að Múhameð komi til fjallsins, þ.e. að maltviskíið komi til Jerez de la Frontera á Spáni þar sem sérrýframleiðslan fer fram og þar sem sérrý tunnurnar bíða vel blautar eftir nýrri áfyllingu.
Ákveðið var að hefja framleiðslu á viskíi framleiddu með þessar aðferð og þar með fæddist Nomad Outland viskí, sem er blanda af 30 malt- og kornviskí tegundum frá Speyside svæðinu í Skotlandi, þar á meðal hinu fræga maltviskí Glenlivet. Þessi blanda er síðan látin þroskast í búrbón tunnum í tvö til fimm ár og síðan er blöndunni hellt í Oloroso sérrý tunnur og geymd þannig í þrjú ár í viðbót. Síðan er blandan flutt til Jerez á Spáni og hellt í tunnur undan Pedro Ximénez sérrý og geymdar í þeim í 12 mánuði. Þá er er Nomad Outland loksins tilbúið til neyslu. Útkoman er flókið vín með mildu bragði og nokkrum sætuvotti, sem eflaust má rekja til sérrý vistarinnar. Næstum eins og listlega blandaður viskíkokkteill.
Og þá er það nafnið. Enska orðið nomad er haft um fólk sem hefur ekki fasta búsetu, en flakkar um eftir því sem aðstæður bjóða best. Í nútímanum er slíkt fólk gjarnan með vinnu sem hægt er að stunda á netinu, t.d. vefsmíðar, forritun og þess háttar störf. Alvaro Plata, talsmaður González Byass, segir að nafnið vísi til þess að Nomad viskíið sé hvorki skoskt né spænskt. Outlander vísar aftur á móti til þess að þetta viskí er framleitt í landi með enga viskíhefð; það er í senn alþjóðlegt og dularfullt, jafnvel ónumið land í augum viskiheimsins.