Staður og stund

Minnispunktar ferðalangs

Sviptingar á Svínadal

Ég gisti á Sauðafelli í Dölum í sumar120. – 21. júlí 2024. og átti góða vist á þeim sögufræga stað, sem hjónin Finnbogi Haraldsson og Berglind Vésteinsdóttir sitja með sóma.

Finnbogi bóndi átti í fórum sínum ýmsan fróðleik um staðinn, m.a. á lausum blöðum. Þar á meðal óútgefna grein eftir Einar Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóra á Laugum, þar sem hann velti fyrir sér hvort Drífandagil á Svínadal hefði mögulega heitið Hafragil að fornu, en það gil er í nánd við svonefndan Kjartansstein norðan Mjósunda á dalnum. Margir lesendur Laxdælu hafa saknað Kjartanssteins við það Hafragil sem er allnokkuð sunnan við Mjósund2Laxdæla nefnir staðinn Mjósyndi, sem einnig er gert í mörgum eldri heimildum. Mér vitanlega eru ekki uppi deilur um að Mjósyndi sé sá staður sem í dag nefnist Mjósund. og er því eðlilegt að reynt sé að samræma staðhætti og sögu eftir föngum.

Ég er þakklátur þeim Einari Kristjánssyni fyrir að hafa skrifað greinina og Finnboga Haraldssyni fyrir að sýna mér hana, því eftirfarandi hugleiðingar eru einmitt innblásnar af lestri hennar. Það má líta á þetta sem dæmi um að eiga samtal um söguna, en það tel ég einmitt nauðsynlegt á öllum tímum og yfir alla tíma.

Nokkur orð um áttavísanir

Sú málvenja að tala um að fara vestur í Dali, vestur í Saurbæ, vestur á Firði osfrv, þegar stefnan liggur í raun í norður, eða norðvestur, getur ruglað fólk í ríminu og verður þess iðulega vart þegar lesin eru skrif sem fjalla um þá atburði Laxdælu sem gerast á Svínadal. Það vill brenna við að orðin vestur og norður séu nokkurn veginn jafngild vegna málvenjunnar. Þetta þarf að hafa í huga og því þykir mér rétt að gera grein fyrir notkun minni á áttavísunum í þessum pistli.

Svínadalur í Dalasýslu liggur nokkurn veginn lóðbeint milli norðurs og suðurs. Því er landfræðilega eðlilegt að vísa til staða sem liggja nær Saurbæ sem norðlægum stöðum og lýsa staðháttum sem liggja nær Hvammssveitinni sem suðlægum stöðum. Svínadalsá rennur eftir Svínadal, bæði til norðurs og suðurs3Í rauninni er um tvær ár að ræða sem renna í sitt hvora átt. Þær heita sama nafni og eru ekki aðgreindar í daglegu tali, og má því einnig vísa til staða eftir því hvort þeir liggja vestan eða austan megin við ána. Mér þykir eðlilegt að vísa til staðhátta á dalnum með hliðsjón af þessum tveimur ásum (norður-suður og vestur-austur) og segja t.d. að Hvolssel sé staðsett norðan Mjósunda og vestan Svínadalsár og að Hafragil sé sunnan Mjósunda og austan Svínadalsár. Í þessum pistli verður þessi háttur hafður á áttavísunum til að forðast misskilning.

Vangaveltur um gil og stein

Í Laxdælu er sagt frá för Kjartans Ólafssonar úr Saurbæ suður um Svínadal og fyrirsát Bolla Þorleikssonar og Ósvífurssona frá Laugum við Hafragil á Svínadal. Þar slær í bardaga og tekur Kjartan til varna við stein mikinn hjá gilinu. Þar veitir Bolli frænda sínum og fóstbróður banasár. Þessi atburður er hápunktur sögunnar; allt sem áður gerðist miðar að honum og síðar er fjallað um margvísleg eftirmál hans.

Kjartanssteinn
Kjartanssteinn í Kjartansholti. Mjósund lengst til hægri.

Hafragil (sjá efst á síðunni) er þekkt á Svínadal og landslag þar rímar ágætlega við staðháttalýsingar Laxdælu. Þó vantar áðurnefndan stein við Hafragil. Á síðari tímum virðast hafa myndast sögur um að steinn, sem klúkir utan í holti norðan Mjósunda, sé Kjartanssteinn4Árni Björnsson, „Dularfull örnefni í Dölum. Kjartanssteinn“. Í hálfkæringi og alvöru. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2017), bls. 189. „Það eru að minnsta kosti … Lesa meira.... Til að hafa gil nálægt þessum steini hefur verið sett fram tilgáta um að Drífandagil5Á herforingjaráðskortunum og Atlaskortunum hefur Drífandagili og Hellnagili verið víxlað. Hellnagil er rétt norðan við Mjósund en Drífandagil nokkuð norðar, en ekki öfugt eins og … Lesa meira... hafi áður heitið Hafragil6Einar Kristjánsson, „Hefur Hafragil verið á tveim stöðum á Svínadal“. Óprentuð grein. án þess að nokkur gögn styðji þá nafnabreytingu. Ýmsir7Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum, Bréf til ritstjóra Heima er bezt. Heima er bezt, 9. árg., 6. tbl. 1959, bls. 202. Þorleifur Jónsson, „Örnefni nokkur úr Breiðafjarðar-dölum, úr … Lesa meira... hafa bent á að staðsetning svonefnds Kjartanssteins, norðan við Mjósund, komi illa heim og saman við frásögn Laxdælu af mannvígum á Svínadal árið 1003. Rifjum aðeins upp Laxdælu.

Drífandagil
Drífandagil.

Frásögn Laxdælu af ferðum Kjartans

Á skírdag árið 1003 ríður Kjartan Ólafsson úr Saurbæ ásamt fylgdarliði og eru þeir tólf saman. Leið þeirra liggur suður Svínadal.

En er þeir Kjartan voru komnir suður um Mjósyndi og rýmast tekur dalurinn mælti Kjartan að þeir Þorkell mundu snúa aftur. Þorkell kvaðst ríða mundu þar til er þrýtur dalinn.
Og þá er þeir komu suður um sel þau er Norðursel heita þá mælti Kjartan til þeirra bræðra að þeir skyldu eigi ríða lengra: „Skal eigi Þórólfur þjófurinn að því hlæja að eg þori eigi að ríða leið mína fámennur.“8Laxdæla saga, 48. kafli. Tilvitnanir í söguna eru allar í 48. og 49. kafla án þess að þess sé nánar getið.

Þar skilur með þeim og Saurbæingar ríða til baka norður Svínadal, en Kjartan, Án hrísmagi og Þórarinn í Sælingsdalstungu halda áfram í suðurátt þar sem Laugamenn bíða þeirra enn sunnar við Hafragil, eins og segir í Laxdælu:

Nú ríður Kjartan suður eftir dalnum og þeir þrír saman, Án svarti og Þórarinn.. […]
Þeir Kjartan ríða fram að Hafragili.

Í þessum tveimur tilvitnunum kemur skýrt fram að viðskilnaður Kjartans og Saurbæinga á sér stað við Norðursel fyrir sunnan Mjósund. Eftir það ríða Kjartan og félagar áfram til suðurs að Hafragili. Svonefndur Kjartanssteinn er norðan Mjósunda og Drífandagil er enn norðar, í hlíðinni austan við Mjósund, en alls ekki sunnan þeirra. Það stemmir því ekki við lýsingar Laxdælu á atburðarás og staðháttum að bardagi Kjartans og Laugamanna hafi átt sér stað í grennd við þennan stein og Drífandagil.

Þeir Laugamenn héldu til fundar við Kjartan og fylginauta hans níu saman:

Þeir riðu til Svínadals og námu staðar hjá gili því, er Hafragil heitir, bundu þar hesta sína og settust niður. Bolli var hljóður um daginn og lá uppi hjá gilsþreminum.

Á meðan Kjartan, Án hrísmagi og Þórarinn eru komnir talsvert suður fyrir Mjósund bíða Laugamenn í felum við Hafragil. Svona er lýsing Laxdælu á fundi þeirra:

En þá Kjartan bar brátt að er þeir riðu hart og er þeir komu suður yfir gilið þá sáu þeir fyrirsátina og kenndu mennina. Kjartan spratt þegar af baki og sneri í móti þeim Ósvífurssonum. Þar stóð steinn einn mikill. Þar bað Kjartan þá við taka.

Drífandagil er jafn steinlaust og Hafragil. Allnokkur spölur, ríflega 750 metrar, er þaðan og suður að Kjartanssteini. Hafi Laugamenn beðið Kjartans við Drífandagil, þá hefur Kjartan hopað talsvert í suðurátt, en það er ekki í samræmi við ofangreinda lýsingu sögunnar, „Kjartan spratt þegar af baki ok sneri í móti þeim Ósvífurssonum“.

Kortið sýnir helstu staði sem koma við sögu í þessum pistli. Smellið á merkin til að sjá heiti staðana.

Steinninn

Þetta eitt er ritað í Laxdælu um steininn sem stóð nærri átakastaðnum:

Þar stóð steinn einn mikill. Þar bað Kjartan þá við taka.

Ekki er vikið einu orði að því hvort og þá hvaða hlutverki steinninn gegndi í bardaganum. Með hliðsjón af því sýnist lítil ástæða til að finna upp nafnabreytingar á giljum eða velta vöngum yfir staðsetningum selja og bústaða, hvað þá að ásaka Laxdæluhöfund um lélega þekkingu á staðháttum á Svínadal, allt út af einum steini sem lauslega er vikið að í sögunni. Af einhverjum ástæðum hefur steinninn fengið miklu meira vægi og rúm í hugum fólks en sagan gefur tilefni til.

Ýmsar skoðanir eru uppi um sannleiksgildi Laxdælu og annarra Íslendingasagna. Mér finnst líklegt að sagan styðist við meginþræði sem eiga sér raunverulegar fyrirmyndir þó að einhverju skeiki um nákvæmni á langri vegferð munnlegrar geymdar. Þessa meginþræði nýtir hinn listfengi höfundur, lagar í hendi sér og bætir við því sem honum þykir þurfa til að skila fullunnu skáldverki sem hefur traustar meginstoðir, haganlega mótað innra burðarvirki og vef ofna og spennandi atburðarás.

Góður vinur og fyrrum samstarfsmaður, sem er kunnáttumaður í Íslendingasögum, nefndi við mig í spjalli að líklega væri sagan af Þorkatli á Hafratindum skáldskapur. Þetta finnst mér sennileg tilgáta, saga hans er mjög lauslega tengd meginsögunni og virðist gegna tvíþættu hlutverki: að skapa viðbótar sjónarhorn á hinn mikilvæga fund Kjartans og Laugamanna og einnig að búa til fórnarlamb til að slá aðeins á ofsa bræðra Kjartans og hefndarhug eftir víg hans. Einn þeirra drepur Þorkel, sem vildi ekki vara Kjartan við fyrirsátinni og hrakyrti hann látinn. Þar með er Þorkell úr sögu. Augljóslega leggur höfundur ekki mikla rækt við þessa hliðarsögu og ef einhvers staðar er hægt að saka hann um ónákvæmni í staðsetningum, þá er það í sambandi við hrossastúss Þorkels. Og úr því að höfundur gerir ekki meira en að rétt nefna steininn þegar hann sviðsetur meginatburð sögunnar, gæti hann allt eins verið uppdiktaður leikmunur í sviðsmyndinni til að setja upp ákjósanlegar aðstæður þar sem fáir verjast mörgum.

Sprunginn steinn
Náttúruöflin að verki. Sprunginn steinn við Hellnagil. Í baksýn sér til Kjartansholts og steins.

Sigurður Vigfússon nefnir ýmis atriði sem gætu skýrt hvarf steinsins við Hafragil, eins og að færsla vegarins vestur fyrir Svínadalsá bendi til að jarðrask hafi átt sér stað austan árinnar og haft áhrif á afdrif steinsins. Einnig nefnir hann að frá því að hann sá steininn norðan Mjósunda fyrst 1846 og síðast 1881, hafi um þriðjungur steinsins verið „sprunginn frá“9Sigurður Vigfússon, „Rannsókn í Breiðafjarðardölum og í Þórsnesþingi og um hina nyrðri strönd 1881“, Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1882, bls. 60-105 (70).. Hafi slík eyðing átt sér stað á 35 árum má ímynda sér hvað gerst hefur á 800 árum eða svo. Þegar sögur mynduðust um Kjartansstein norðan Mjósunda var Laxdæla aðeins til í handritum sem alþýða manna hafði engan aðgang að og gat ekki flett upp í. Engu að síður hafa helstu atburðir sögunnir lifað með þjóðinni og þá ekki síst hápunktur sögunnar; víg Kjartans við Hafragil á Svínadal.

Kjartanssteinn
Kjartanssteinn. Glögglega sést hvernig molnað hefur úr steininum.

Loks má benda á að í Hafragili er steinn eða klettur (sjá mynd) sem mögulega gæti hafa komið við sögu. Hafa ber í huga, eins og áður hefur verið nefnt, að náttúran hættir aldrei stöðugri landmótun sinni og því gætu aðstæður hafa breyst eitthvað frá árinu 1003.

Hafragil, nánar
Klettar (steinar) í Hafragili á Svínadal.

Herfræðin

Sá Kjartan Ólafsson sem ríður ásamt ellefu manna fylgdarliði suður Svínadal er mikill kappi sem kann ekki bara að berjast heldur líka að meta aðstæður. Hann vekur fyrst máls á því að hluti fylgdarliðsins, Saurbæingarnir níu, snúi aftur þegar hann er kominn suður fyrir Mjósund, samkvæmt sögunni.

Þetta er afar skiljanlegt frá „herfræðilegu“ sjónarmiði. Svínadalur er þrengstur við Mjósund og þau þrengsli takmarka sýn til beggja átta (norður og suður). Þar eru og vatnaskil á dalnum. Þegar komið er suður fyrir Mjósund á suðurleið má því segja að vel sé hægt að meta aðstæður sunnan megin þrengslanna að svo miklu leyti sem það er hægt í landslagi sem ekki er marflatt. Auk þess er þá tiltölulega stutt eftir í dalsmynnið, Hvammssveitar megin og þar með heim að Sælingsdalstungu. Munum að Kjartan vildi ekki láta það um sig spyrjast að hann þyrði ekki að fara leiðar sinnar fámennur.

Við Norðursel
Horft suður Svínadal skammt frá Norðurseli .

Að færa fund Kjartans og Laugamanna norður fyrir Mjósund gengur ekki bara gegn lýsingu sögunnar á ferðalagi Kjartans, heldur einnig augljósu og skynsamlegu mati á aðstæðum.

Um landareign Hvolskirkju á Svínadal

Í úrskurði Óbyggðanefndar í máli nr. 1/201610Úrskurður Óbyggðanefndar. Mál 1/2016, Flekkudalur og Svínadalur. (Reykjavík: Óbyggðanefnd, 2018), bls. 165-172, sjá sérstaklega bls. 169. Vefskjal (PDF): … Lesa meira... er farið yfir allar þekktar heimildir (landamerkjabréf, máldaga, vísitasíur ofl) um merki á Svínadal og landareign Hvolskirkju þar. Máldaginn frá 1491-1518 er eina heimildin sem nefnir Hafragil sem mörk eignar Hvolskirkju á Svínadal. Reyndar verða mörk landareignar Hvolskirkju á Svínadal með Hafragil sem punkt alltaf býsna skrítin, hvort sem miðað er við það Hafragil sem þekkt er í dag eða Drífandagil, hafi það einhvern tímann borið nafnið Hafragil. Í nefndum úrskurði Óbyggðanefndar er getum leitt að því að í rauninni sé átt við Hrafnagil sem er vestan megin Svínadalsár nokkurn veginn beint á móti Réttargili. Það er í samræmi við merkjalýsingar í öllum öðrum heimildum sem getið er um í úrskurðinum, allt frá Gíslamáldaga (sjá neðar) frá því um 1570. Samkvæmt þessum heimildum eru mörkin frá Njálsgili að Réttargili að austan og frá Hrafnagili til Volafalls að vestan. Þessi skilgreining Hvolskirkjulands passar mjög vel við nánast allar tiltækar heimildir, svo og staðhætti á Svínadal.

Hvoll í Saurbæ
Hvoll í Saurbæ.

Í Gíslamáldaga segir að Hvolskirkja eigi land á Svínadal frá Melzgili að Réttargili. Gilsheitið Melzgil er ekki þekkt á þessu svæði. Allar síðari heimildir eru efnislega samhljóða Gíslamáldaga um mörk, nema í þeim er miðað við Njálsgil sem nyrðri mörk Hvolskirkjulands austan megin Svínadalsár. Niðurstaða óbyggðanefndar er því sú „að átt sé við Njálsgil þegar getið er um Melsgil í máldaganum [Gíslamáldaga]“. Giljaheiti í máldögum fara því ekki að öllu leyti saman við staðhætti og heiti síðari tíma, enda er flest breytingum háð og mönnum getur skjátlast á öllum tímum.

Staðþekking Laxdæluhöfundar

Flestir virðast á einu máli um að staðþekking Laxdæluhöfundar sé með afbrigðum góð. Í formála að Laxdæluútgáfu Fornritafélagsins lýkur Einar Ólafur Sveinsson lofsorði á staðþekkingu Laxdæluhöfundar og ritar m.a.:

Slíka þekkingu sem þessa getur enginn haft, nema sá, er borinn er og barnfæddur í Breiðafirði, og helzt í Dölunum sjálfum, eða hefur dvalizt þar langdvölum.11Einar Ólafur Sveinsson, „Formáli“. Íslensk fornrit V. Laxdæla saga. (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1934), bls. xxiii.

Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum í Laxárdal telur staðháttalýsingar Laxdælu „svo nákvæmar, í svo stuttu máli, að ekki væri hægt að ná þeim betri af nútíðarmanni“12Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum, Bréf til ritstjóra Heima er bezt. Heima er bezt, 9. árg., 6. tbl. 1959, bls. 202..

Kristian Kålund farast svo orð um þetta:

Enginnn slíkur steinn er nú við Hafragil, en þrátt fyrir það að þessi staður kemur svo fullkomlega heim við frásögn Laxdælu, að enginn vafi er, hvar bardaginn hefur verið, hafa menn þó lengi bent á Kjartansstein við Mjósyndi, við norðurenda sundsins í rana sem skagar fram vestan frá. Þetta er gott dæmi um, að rangar sögusagnir geta komið fram óháðar sögunum eða jafnvel í mótsögn við þær.13P. E. Kristian Kålund, Íslenskir sögustaðir II. Haraldur Matthíasson þýddi. (Reykjavík: Örn og Örlygur hf., 1985), bls. 106.

Svínadalur var á þessum tíma þjóðleið á milli Hvammssveitar og Saurbæjar og svo áfram til Vestfjarða og Stranda. Að halda því fram að sá sem hefur jafn góða staðþekkingu og hér hefur verið lýst þekki ekki þessa alfaraleið í meginatriðum fær tæpast staðist, enda hef ég ekki séð nein rökstudd dæmi um þekkingarleysi Laxdæluhöfundar á staðháttum á leiðinni yfir Svínadal.

Niðurstöður

Örnefnið Mjósund er mikilvægasta staðsetningin til að ákvarða fund Kjartans og Laugamanna. Aðrir staðhættir gegna þar veigaminna hlutverki. Eins og áður er nefnt er Laxdæla afar skýr með að Kjartan og förunautar hans eru staðsettir sunnan Mjósunda þegar leiðir þeirra skilja. Eftir það ríður Kjartan enn í suðurátt og finnur að lokum Laugamenn í launsátri við Hafragil. Í rauninni þarf ekki að velta fyrir sér staðsetningu eða heitum einstakra gilja; Mjósund taka af allan vafa um hvar bardaginn fór fram.

Staðþekking Laxdæluhöfundar er óumdeild og hæpið að halda því fram að hann hafi ekki kunnað góð skil á þjóðleiðinni yfir Svínadal.

Það kunna að vera náttúrulegar ástæður til þess að steinninn góði er ekki lengur sýnilegur, en kannski er hann þarna. Mögulega er hann tilbúningur Laxdæluhöfundar.

Það er fullkomlega rökrétt, frá sjónarhóli bardagakappa, að vekja ekki máls á að fækka í föruneyti sínu fyrr en komið var framhjá þeim stað á Svínadal sem mest tálmar útsýni, nefnilega Mjósundum. Þegar komið er framhjá Norðurhólum í Norðursel er útsýnið enn betra suður dalinn.

Séu heimildir um landareign Hvolskirkju á Svínadal metnar í samhengi, er mjög vafasamt að halda því fram að þær styðji tilgátu um að Drífandagil hafi áður heitið Hafragil.

Öll rök benda því til þess að bardagi Kjartans við Laugamenn hafi átt sér stað við það Hafragil sem við þekkjum í dag.

Athugasemd um myndir

Allar myndir sem birtar eru með pistlinum tók höfundur í vettvangsferð um Svínadal þann 10. ágúst 2024.

Hafnarfirði 5. september 2024.

Benedikt Jónsson

Áhugamaður um land, fólk, bókmenntir og sögu.

Tilvísanir

Tilvísanir
1 20. – 21. júlí 2024.
2 Laxdæla nefnir staðinn Mjósyndi, sem einnig er gert í mörgum eldri heimildum. Mér vitanlega eru ekki uppi deilur um að Mjósyndi sé sá staður sem í dag nefnist Mjósund.
3 Í rauninni er um tvær ár að ræða sem renna í sitt hvora átt. Þær heita sama nafni og eru ekki aðgreindar í daglegu tali
4 Árni Björnsson, „Dularfull örnefni í Dölum. Kjartanssteinn“. Í hálfkæringi og alvöru. (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2017), bls. 189. „Það eru að minnsta kosti þrjúhundruð ár sem sú villa hefur vaðið uppi að þessi steinn hafi verið bakhjarl Kjartans Ólafssonar þegar hann barðist við Ósvífurssyni og féll fyrir Bolla frænda sínum.“
5 Á herforingjaráðskortunum og Atlaskortunum hefur Drífandagili og Hellnagili verið víxlað. Hellnagil er rétt norðan við Mjósund en Drífandagil nokkuð norðar, en ekki öfugt eins og kortin sýna.
6 Einar Kristjánsson, „Hefur Hafragil verið á tveim stöðum á Svínadal“. Óprentuð grein.
7 Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum, Bréf til ritstjóra Heima er bezt. Heima er bezt, 9. árg., 6. tbl. 1959, bls. 202. Þorleifur Jónsson, „Örnefni nokkur úr Breiðafjarðar-dölum, úr Laxdælu, Landnámu, Sturlúngu, Grettis sögu, Fóstbræðra sögu og Kórmaks sögu. Hafratindar“, Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju II (Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1886), bls. 588-575 (564 og 570). P. E. Kristian Kålund, Íslenskir sögustaðir II. Haraldur Matthíasson þýddi. (Reykjavík: Örn og Örlygur hf., 1985), bls. 106.
8 Laxdæla saga, 48. kafli. Tilvitnanir í söguna eru allar í 48. og 49. kafla án þess að þess sé nánar getið.
9 Sigurður Vigfússon, „Rannsókn í Breiðafjarðardölum og í Þórsnesþingi og um hina nyrðri strönd 1881“, Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1882, bls. 60-105 (70).
10 Úrskurður Óbyggðanefndar. Mál 1/2016, Flekkudalur og Svínadalur. (Reykjavík: Óbyggðanefnd, 2018), bls. 165-172, sjá sérstaklega bls. 169. Vefskjal (PDF): https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/09A_2016-1_urskurdur.pdf. Sótt 5. ágúst 2024.
11 Einar Ólafur Sveinsson, „Formáli“. Íslensk fornrit V. Laxdæla saga. (Reykjavík: Hið íslenska fornritafélag, 1934), bls. xxiii.
12 Hallgrímur Jónsson frá Ljárskógum, Bréf til ritstjóra Heima er bezt. Heima er bezt, 9. árg., 6. tbl. 1959, bls. 202.
13 P. E. Kristian Kålund, Íslenskir sögustaðir II. Haraldur Matthíasson þýddi. (Reykjavík: Örn og Örlygur hf., 1985), bls. 106.

Next Post

© 2024 Staður og stund

Theme by Anders Norén